139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir alveg með endemum ef hv. þingmaður getur ekki svarað mér því efnislega hvers vegna farin sé önnur leið og settar sérreglur um fyrningu á þessum fjórum fisktegundum. Þetta er ekki mjög flókið. Hv. þingmaður sat í þessari undirnefnd sem fjallaði um þessi mál. Hver er ástæðan fyrir sérreglunum? Þetta er mjög einföld spurning. Það þarf ekki að uppfræða mig um að mörg gögn hafi verið lögð fyrir einhverja sáttanefnd og þar fram eftir götunum. Spurningin er mjög einföld: Hvers vegna er farin önnur leið með fjórar fisktegundir en allar hinar?

Það er mjög einföld spurning og það er furðulegt að geta ekki svarað því hér efnislega þó að tíminn sé stuttur. Það er þetta sem ég er að kalla eftir: Hver er ástæðan fyrir því að þessi leið er farin? Mér er fullljóst hvernig skipt er í potta og það allt saman, ég get alveg lesið það í frumvarpinu, en hvers vegna er farin önnur leið gagnvart fjórum fisktegundum en öllum hinum? Einföld spurning sem hlýtur að geta verið einfalt svar við.