139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

erlend staða þjóðarbúsins.

[10:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í þann leik með hv. þingmanni, hann hefur verið ötull við að úthúða Seðlabankanum og ég ætla að láta formann Framsóknarflokksins um það hjálparlaust.

Að sjálfsögðu veldur það alltaf vonbrigðum þegar í ljós kemur að þetta miklir erfiðleikar eru í því að átta sig á breytum sem skiptir máli að við höfum eins glöggar upplýsingar um og mögulegt er. En það lá alltaf fyrir að mjög erfitt yrði að gera nákvæmt mat á þessari skuldastöðu fyrr en uppgjöri gömlu bankanna væri lokið og nánari greining nákvæmlega á því hvernig eignir búanna væru saman settar, að hve miklu leyti í erlendri mynt og innlendri og hver væri hlutdeild innlendra og erlendra kröfuhafa í því uppgjöri, hvað af áföllnum og reiknuðum vaxtakostnaði yrði síðan afskrifað o.s.frv. Í það heila tekið er ljóst að heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins verða af allt annarri stærðargráðu eftir þetta uppgjör en þær voru fyrir það. Og eins og ég segi, ég tel að mikilvægasta einstaka breytan í þessu sé gjaldeyrisjöfnuðurinn í uppgjörunum. Svo lengi sem hann er ekki að ráði skakkur er ekki ástæða til að fara af hjörunum út af þessu.