139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

viðvera ráðherra -- framlagning frumvarpa fyrir sumarhlé.

[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er gamall þingflokksformaður og kann það fag mjög vel að fara í töfluna frammi á gangi til þess að fylgjast með því hverjir séu í þinghúsi. Ég tók eftir því þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skráði sig inn í þinghúsið. Ég tel það hins vegar ekki viðunandi að hefja umræðuna að nýju um þetta stóra mál öðruvísi en að hæstv. ráðherra sé til staðar í þingsalnum og hlýði á umræður okkar sem teljum okkur hafa eitthvað til málanna að leggja. Þótt hæstv. ráðherra sé í húsinu er ekki þar með sagt að hann hafi aðstæður til þess að hlusta á það sem hér fer fram og taka niður þær spurningar sem fyrir hann eru lagðar.

Ég ítreka því að það er ekki viðunandi og ekki upp á það bjóðandi að þessi umræða hefjist öðruvísi en að hæstv. ráðherra sé til staðar í þinghúsinu og hafi kost á því að fylgjast nákvæmlega með. Í umræðunni á eftir ætla ég að leggja fram allmargar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem nú er að koma þannig að nú get ég látið gott heita í bili.