139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef óskað eftir því nokkrum sinnum að hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, verði viðstaddur umræðuna sem og aðrir hæstv. ráðherrar sem málið varðar eins og fjármálaráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra sem reyndar situr í hliðarsal. Þá er ég ekki að biðja um hæstv. velferðarráðherra sem formann þeirrar nefndar sem að þessu frumvarpi stóð heldur er ég að biðja um hann sem velferðarráðherra, sem þess manns sem á að gæta hagsmuna öryrkja, fatlaðra og aldraðra í þjóðfélaginu. Spurning mín til frú forseta er: Er líklegt að hæstv. velferðarráðherra mæti á fundinn fljótlega? Ég mun þá ekki fara inn á þau atriði sem …

(Forseti (ÁI): Hæstv. velferðarráðherra er ekki í húsinu sem stendur en boðum verður komið til hans um að nærveru hans sé óskað.)

Þá er mér vandi á höndum af því að ræðutíminn er ekki nema 15 mínútur en við skulum vona að hann komi innan þess tíma. Ég ætla þá ekki að fara inn á þau atriði sem hann varðar.

Það sem ég ætla að byrja á að tala um, frú forseti, er að hrun varð á Íslandi, bankakerfið hrundi og í kjölfarið fjöldinn allur af fyrirtækjum. Það varð mikið atvinnuleysi, ákveðinn forsendubrestur varð hjá þeim heimilum sem áttu ekki von á því að missa atvinnuna í þeim mæli og fólk gat ekki borgað af lánum sínum. Enn frekara atvinnuleysi varð og brottflutningur til útlanda sem ég tel vera mjög hættulegan þar sem við erum að flytja út mannauðinn, sem er eiginlega eina auðlindin sem við eigum. Í þeirri stöðu hefur ríkisstjórnin verið að gera eitthvað allt annað en að sinna brýnum hagsmunum heimila og fyrirtækja. Fyrst var talað um Seðlabankann lengi vel, svo komu menn með galinn samning um Icesave nokkrum sinnum og síðan var sótt um aðild að Evrópusambandinu öllum til óþurftar, frú forseti. Menn voru að vasast í alls konar málum sem ekki eru mjög brýn einmitt núna. Eitt af því er eignarhaldið á kvótanum í sjávarútveginum. Það er mál sem þarf að leysa, ég held að allir séu sammála um það, en það þarf að gefa sér góðan tíma í það og menn eiga ekki að gera það á þessum tímapunkti. Það var það versta sem menn gátu gert, að fara að hræra í framtíðarsýn sjávarútvegsins á þessum tímapunkti sem hefur stöðvað allar fjárfestingar og aukið enn meira á vandann sem við erum að glíma við gagnvart stöðu fyrirtækja. Fjöldi fyrirtækja er háður því að fá verkefni frá sjávarútveginum í fjárfestingum og fjöldi starfsmanna er háður því líka. Þetta er eiginlega versti tímapunkturinn til að fara út í svona aðgerðir. En þetta sýnir hvað ríkisstjórninni eru mislagðar hendur og hvað hún er óhamingjusöm í ákvörðunum sínum.

Ég ætlaði að tala um samspil velferðar og sjávarútvegs en ég ætla að bíða með það þangað til hæstv. ráðherra er kominn.

Við ræðum núna seinna frumvarpið af tveimur. Það fyrra var vont og þetta er verra, langtum verra, því það horfir til framtíðar. Nú skilst mér að ekki sé voðalega mikil áhersla lögð á að það verði samþykkt. Tímasetningin á gildistökunni segir mér það því að hún á að vera bara um leið og það er samþykkt og þá félli fyrra frumvarpið, sem við erum búin að eyða óskaplegum tíma í, úr gildi. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir að þau lög falli úr gildi.

En það sem mun gerast núna er að arðsemi sjávarútvegsins mun stórminnka. Það er yfirlýst stefna að fleiri komi að sjávarútvegi, fleiri vinni í sjávarútvegi og jafnmargir þorskar fari úr landi og sem veiðast. Ekkert mun aukast nema fjöldi starfa. Í mínum huga segir það mér ósköp einfaldlega að launin muni lækka, arðsemin muni minnka. Launin munu lækka eins og alltaf þegar menn fara að gera eitthvað með meiri mannskap en þarf.

Ég hef nefnt það áður að menn gætu farið svipaða stefnu og látið bændur slá hey með orfi og ljá og þá yrði aldeilis líf í sveitunum, frú forseti. Eins og menn tala núna um að það verði líf í höfnunum þegar allar litlu trillurnar koma siglandi inn, þriggja tonna skeljar sem eru náttúrlega stórhættulegar og ef þær lenda ekki í slysum þá koma þær siglandi inn með aflann sinn litla. Þetta kæmi í skorpum og heilmikið líf yrði en það yrði ekki arðsemi fyrir tíu aura. Það er það sem ég óttast mest í þessu kerfi.

Við verðum að hafa arðsemi á Íslandi. Af hverju? Við erum um 330 þúsund. 170 þúsund manns eru á vinnumarkaði, þ.e. 170 þúsund sem þurfa að sjá um eða bera önn fyrir 160 þúsund manns sem eru aldraðir, öryrkjar, námsmenn og börn. Það má því segja að svipað margir séu að vinna fyrir hverjum einstaklingi, þ.e. hver vinnandi maður hafi tvo á framfæri. Þetta er eðlilegt og þetta er ágætt. Í þessum hópi vinnandi eru 35 þúsund opinberir starfsmenn sem taka laun sín beint eða óbeint með sköttum hinna sem ekki eru opinberir starfsmenn. Um 125 þúsund manns — af því að opinberir starfsmenn eru sirka 35–40 þúsund — vinna og borga fyrir allan hinn hópinn sem er 205 þúsund manns, 200–205 þúsund manns sem 125 þúsund manns eru að vinna fyrir í frumgreinum, þ.e. sem ekki taka laun frá öðrum. Það þýðir að hver vinnandi maður í almennum atvinnurekstri þarf að standa undir 1,6 manni til framfærslu, það eru börn, námsmenn, öryrkjar, aldraðir o.s.frv. eins og ég gat um. Þetta gerir kröfu um gífurlega arðsemi í þessum atvinnugreinum, gífurlega arðsemi. Stór álver sem geta skaffað dýr störf og verðmæt, sjávarútvegur sem nýtir auðlindina þannig að hann geti borgað há laun og háu launin borgi þá háa skatta o.s.frv. Við megum ekki slaka á arðsemiskröfunni og það er einmitt það sem þetta frumvarp gerir, það slakar á arðsemiskröfunni.

Ég ætla að byrja á því að fara í 1. gr. Hún er ótrúleg. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru auðlind í óskoraðri þjóðareign.“

Þetta eru falleg orð, segja mér reyndar ekki neitt en falleg engu að síður. Þjóðareign, það er þjóð sem á eitthvað. Auðlind, það er einhver lind sem auður sprettur úr en menn hafa ekki sagt mér nákvæmlega hvað það er. En svo stendur, frú forseti:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindarinnar.“ Sem er í óskoraðri þjóðareign. Það segir mér að einhver hugljómun sé um að hann sé þjóðin, hæstv. sjávarútvegsráðherra sé þjóðin. Hann fer sem sagt með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindarinnar. Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, er þjóðin sjálf. Svona eru menn komnir langt þegar þeir rugla saman hugtökum eins og þjóð og ríki sem er tvennt ólíkt, gersamlega ólíkt, og almenningur o.s.frv., þegar menn fara að tala í einhverjum fallegum frösum sem þeir vita ekki nákvæmlega eða hafa aldrei skilgreint hvað er.

Svo er eitt einkennandi við þetta frumvarp að í því eru óskaplega langar greinar. Ég tek eftir að 3. gr. er upp á góðar tvær síður. Það er eins og smásögur, frú forseti. Þetta er ekki lagasetning fyrir tíu aura, þetta eru smásögur (Gripið fram í: Þetta eru vinjettur.) Þetta eru vinjettur, já mér datt það orð nú ekki í hug, þá er lýsingin komin, þetta eru vinjettulög. Þetta er mjög ómarkviss lagatexti og illskiljanlegur. Ég ætla ekki að fara lengra út í það.

Umræðan um sjávarútvegsmálin sem kristallast í þessum tveimur frumvörpum helgast af rómantík og öfund, blöndu af því tvennu. Rómantíkin felst í því að einhver duggudugg-karl siglir trillunni sinni og nær í fisk, gott ef hann er ekki að róa með árum. Þetta er voðalega rómantískt og það er logn á firðinum og fjöllin speglast og allt er voða fallegt. Svo er það rómantík að allir geti farið að veiða sem vilja, bara ef þeim dettur það í hug. Síðan hafa sömu menn selt kvóta eða skip sem kvóti var bundinn við fyrir óskaplega háar upphæðir fyrir venjulegt launafólk, 200, 300, 400, 500 milljónir, menn eru meira að segja farnir að tala um milljarða, og fólk sem vann við hliðina á því fólki sér ofsjónum yfir því, ósköp skiljanlega. Vandinn er sá að þeir menn eru búnir að selja og það verður varla gert afturkræft af því að þeir borguðu oft með skuldum sem þeir voru með, oft menn sem voru lélegir í rekstri, gátu ekki stundað útgerð með góðu móti og losnuðu við allar skuldirnar úr rekstrinum og fengu smá og jafnvel mikinn pening í milligjöf.

Þeir sem keyptu af þeim eru hins vegar núna í rekstri. Þeir eru ekki sægreifar í þeim skilningi að þeir hafi fengið eitthvað gefins, þeir borguðu helling af peningum fyrir það. Umræðan er því mjög mikið á villigötum. Svo eru alhæfingar, ljót orð og svoleiðis og ég get vel skilið það af eigin skinni að það er ekkert voðalega gaman að vera að vinna og fá alltaf einhver skammaryrði fyrir það sem maður er að vinna við, eins og útgerðarmenn hafa skrifað okkur, einn sem aldrei hefur selt neitt eða leigt frá sér. Hann er kallaður sægreifi og alls konar ljótum orðum eins og hann sé einhver afæta. Hann er bara að stunda sitt starf. Ég get alveg skilið hann og tekið upp þykkjuna fyrir hann.

Það sem er verst í þessu máli, eins og ég gat um áðan, er takmarkað framsal. Það er alveg ljóst, frú forseti, og getur enginn mælt því mót að framsalið er arðsemin í kerfinu. Ef ekkert framsal er leyft, eins og mér skilst að Norðmenn hafi gert, þá verða sömu dallarnir ætíð að veiða fiskinn, það má ekki framselja hann, það má ekki senda hann frá skipinu þannig að ákveðið skip sem einhvern tíma veiddi fisk verður að veiða hann áfram þótt það sé orðið úrelt, gamalt og þreytt og gæti með nýrri tækni, ef það tæki upp nýja tækni, veitt miklu meira en þá verður þetta sama skip að veiða sama kvóta. Það er enginn hvati til að bæta veiðiaðstöðuna eða eitthvað slíkt.

Hins vegar ef tveir menn eiga hvor sitt skipið og mega framselja sín á milli og hægt er að veiða þennan sama afla með góðri tækni og nýrri skipum þá gera þeir það að sjálfsögðu. Annar framselur til hins og sá veiðir allan aflann. Þar kemur arðsemin og arðsemin hefur verið gífurleg í sjávarútvegi, eða hagræðingin hefur verið gífurleg, við skulum orða það þannig. Þeim hefur fækkað um helming sem vinna við þetta og þeir veiða nánast jafnmikið og áður og miklu verðmætari afla. Vöruþróunin og markaðssetningin og allt það hefur gert kraftaverk en það er ekki auðlind, frú forseti. Það er mannauður. Það er mannauðurinn sem býr það til og ekkert annað. Góður skipstjóri er mannauður en ekki fiskurinn sem hann veiðir. Ég geri mikinn mun á því að tala um auðlind sem mannauð en ekki eitthvað sem gefur af sér annað fyrir ekki neitt.

Menn hafa líka haft rómantíska sýn á nýliðun. Allir eiga að geta veitt fisk. Jú, jú það er skiljanlegt. Ég hef meira að segja flutt um það frumvarp að dreifa kvótanum um alla þjóðina sem færi þá á markað. Þá mundu allir geta veitt fisk því þá væri verðið á kvótanum eins lágt og mögulegt væri. Og það sem meira væri, þá mundu þeir sem geta veitt ódýrast geta keypt kvótann, aðrir ekki.

Nei, í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að nýliðun verði bara í hendi þeirra sem eru moldríkir vegna þess að það er bannað að veðsetja skip sem hafa fengið úthlutaðan kvóta. Það þýðir að engin nýliðun verður nema meðal moldríkra manna sem hafa selt kvótann áður kannski fyrir mikinn pening og hafa efni á að koma honum inn í greinina aftur og kaupa kvótann vegna þess að það er ekki hægt að veðsetja hann. Ég heyrði af því að ein nót kostar 90 millj. kr. Ungur maður sem vill byrja í fiskveiðum fer ekki að snara út 90 millj. kr. af eigin fé. Hann á það auðvitað ekki í veskinu sínu. Sæmilegt skip kostar milljarða þannig að það verður engin nýliðun í þessari grein nema hjá mjög ríkum.

Hagfræðingur ASÍ gefur þessu kvótafrumvarpi falleinkunn vegna þess að hann nefnir takmörkun á varanlegu framsali, eins og ég nefndi, það muni minnka arðsemina. Hann nefnir að völd ráðherra verði mikil og þetta verði sovétskipulag þar sem ráðherra situr og vílar og dílar og gefur mönnum aflaheimildir, væntanlega gegn atkvæðum, og síðan telur hann að krónan muni veikjast.

Ég tel að ef þessi frumvörp verða að lögum muni sjávarútvegurinn hætta að vera sá klár sem dregur vagninn í velferðarkerfinu og það er einmitt það sem ég ætlaði að tala um við hæstv. velferðarráðherra sem enn er ekki kominn, að við borgum ekki góðan lífeyri til öryrkja og aldraðra nema hafa sterkt atvinnulíf.