139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mun ekki hafa langt mál í seinni hluta ræðu minnar hér, ég er enn þá að reyna að átta mig á með hvaða fyrirkomulagi umræðan um þetta mál er. Ég hefði vissulega kosið að hún yrði lengri og meiri vegna þess að það hafa komið fram hér mjög málefnalegar athugasemdir sem mikilsvert er að ræða.

Mig langar fyrst að tæpa á þeim atriðum sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson talaði um og það snýr að sumu sem aðrir hafa talað um að aflaheimildirnar fari til sveitarfélaganna, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem upprunalega voru með útgerð þegar kvótinn var settur á og árið áður en aflaheimildirnar urðu framseljanlegar. Það er nú einu sinni svo á Íslandi að flestöll sveitarfélög landsins hafa byggst upp í kringum einhvers konar náttúrulegar aðstæður. Ástæðan fyrir því að við leggjum ekki til að Hveragerði eða Kirkjubæjarklaustur eða Mývatnssveit eða Flúðir fái úthlutað aflaheimildum í þorski eða lúðu er einfaldlega sú að þessir staðir hafa aldrei verið með útgerð. Þessir staðir hafa í staðinn byggst upp í kringum náttúruauðlind eins og t.d. jarðhita í Hveragerði, jarðhita á Flúðum, Mývatn einfaldlega sem fyrirbæri í Mývatnssveit og Kirkjubæjarklaustur hefur byggst upp sem einhvers konar þjónustukjarni í kringum landbúnaðinn í sveitinni. Nálgunin er einfaldlega sú að þessar náttúrulegu aðstæður sveitarfélaganna og samfélaganna á Íslandi haldi sér fyrst og fremst sem einhvers konar mjög hagkvæmur kostur í því hvaða atvinnustarfsemi fer þar fram. Siglfirðingar munu aldrei, eins og ég hef áður sagt, geta lifað af því að selja ferðamönnum sínalkó á Síldarminjasafninu árið um kring, þeir verða að gera eitthvað annað. Það mun aldrei verða hagkvæmt að vera einungis einhvers konar safnasamfélag á norðurhjara veraldar.

Hvað varðar stjórnarskrárbrot varðandi þá úthlutun minni ég á að þegar kvótanum var úthlutað upprunalega á sínum tíma var honum úthlutað til þeirra sem þegar voru í útgerð en ekki til þeirra sem ekki voru í útgerð og það var ekki talið stjórnarskrárbrot þá og hefur ekki verið talið allan þann tíma. Ég fæ því ekki séð að það breytist eitthvað í dag.

Hv. þingmaður talaði um meðafla og það er vissulega sjónarmið sem þarf að taka tillit til. Ef meðafli verður hundruð tonna af einhverri tilskilinni aflahlutdeild geri ég ráð fyrir að tekið yrði á því með einhverri hliðsjón af því á hvaða veiðislóð menn eru. Ef menn eru að veiða loðnu og það kemur ekkert upp nema þorskur eru menn einfaldlega að veiða loðnuna á röngum stað og ætti þá e.t.v. að huga að því af hálfu Fiskistofu.

Hvað varðar kvótaskuldasjóðinn sem hv. þingmaður nefndi eru skuldirnar ekki vaxtaberandi, gjaldið er ekki lagt á útgerðirnar, það er af söluverði seljanda þannig að sveitarfélögin sem munu leggja til þetta 5% gjald til kvótaskuldasjóðs. Það er ekki hugmyndin að það verði verðtryggt. Miðað við núverandi styrka ríkisstjórn og efnahagsstefnu hennar er ekki útlit fyrir að hér verði mikið um verðbólgu á næstu árum. Hér verður, ef eitthvað er, allt í alkuli næstu tíu árin. Verðbólgan er fyrirbæri sem í sjálfu sér er náttúrlega eðlilegt ef maður horfir á það þannig að lánveitendur taki á sig hluta af þeirri áhættu. Það hefur ekki tíðkast undanfarið á Íslandi en það er kannski kominn tími til að það verði þannig.

Uppboðsleiðin sem hagstæð aðferð — uppboðsleið er í sjálfu sér og eðli málsins samkvæmt alltaf hagstæðasta leið. Þó getur náttúrlega komið fyrir með uppboð eins og annað fyrirkomulag og mannanna verk að þau geta klikkað, 3G uppboðið í Evrópu á sínum tíma var einfaldlega þannig úr garði gert og markaðurinn þannig upp settur að það gekk ekki sem skyldi. Menn hafa verið með uppboð á ríkisbréfum sem þeir hafa þurft að hætta við í skyndingu vegna þess að ekki hafa komið viðunandi tilboð eða þau hafa verið algjörlega út úr kú. Vissulega geta þær aðstæður komið upp að uppboð á ákveðnum tímapunkti sé eitthvað einkennilegt og hætta verði við það. Þess vegna er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að þau verði oftar en einu sinni á ári og helst sem oftast þannig að hægt sé að vinna úr þeim göllum sem fram koma í framhaldinu af því.

Ég þakka líka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir athugasemdir hans um þetta mál, við erum mjög víða sammála í þessu máli. Ég lít á þetta frumvarp sem hina stóru sátt í þessu máli við alla stjórnmálaflokka á þingi því að innan allra stjórnmálaflokka eru í gildi sjónarmið sem þetta frumvarp tekur á. Hvað varðar byggðasjónarmiðin eru það fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir sem hafa lagt áherslu á þau. Ég held að allir stjórnmálaflokkar séu sammála um þau réttlætissjónarmið sem koma hér fram. Hvað varðar hagkvæmnisjónarmiðin og nýtingu markaða til að leiða til hagkvæmustu niðurstöðu er það náttúrlega fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn sem hlýtur að styðja þá leið og jafnvel Samfylkingin, því að Samfylkingin er að mörgu leyti orðin mjög markaðssinnaður flokkur líka og hefur kallað mjög eftir því að kvótinn verði innkallaður. Þetta frumvarp styður þá við það markmið Samfylkingarinnar. Ég tel þess vegna að þetta frumvarp sé einhvers konar hlaðborð sem allir flokkar á þingi geta nýtt sér og geta komið sér undan hótunum sérhagsmunaaðila með því einfaldlega að málinu verði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég þakka líka hæstv. utanríkisráðherra fyrir athugasemdir hans. Hann bendir réttilega á kannski það mikilvægasta í þessu og það er að frumvarpið er valkostur við það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og valkostur við óbreytt ástand og það skiptir máli í lýðræðisríki, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði. Það þurfa að vera valkostir og það þurfa að vera alvöruvalkostir, annars er lýðræðið sjálft bara skrípaleikur. Ég fagna því að hann skuli hafa minnst á þetta. Hæstv. utanríkisráðherra minntist líka á sveitarfélögin og hvernig væri úthlutað til þeirra og eins og fram hefur komið er það gert með ákveðin sjónarmið í huga, þ.e. að það er gert með byggðasjónarmið í huga. Það ætti að leiða til þess að uppbygging verði í sveitarfélögunum og sjávarplássunum í kringum landið en ekki að það þurfi að taka skattfé af íbúum alls landsins í t.d. milljarða veggangaframkvæmdir til að menn eigi greiðari leið á milli safna á landsbyggðinni. Það er einhvern veginn, að mínu viti, bara röng nálgun. Tryggjum þeim sveitarfélögum og þeim svæðum landsins aðgang að þeim auðlindum sem þau búa við í sínu náttúrulega umhverfi. Það hlýtur að vera hagkvæmasta niðurstaðan úr þeirri auðlindaúthlutun. Það er tiltölulega auðskilið og ég held að allir þingmenn ættu að skilja það ef menn velta því eitthvað fyrir sér.

Ég þakka þann framgang sem málið hefur fengið og fagna því að það var tekið á dagskrá og að við fengum að ræða það. Við teljum að þetta sé mjög mikilvægt innlegg í málið og hefði þurft að fá miklu ítarlegri umræðu hér í 1. umr. en það verður fróðlegt að sjá framhaldið á því. Eins og ég sagði áðan munum við leggja fram tillögur til þingsályktunar um að þessu frumvarpi ásamt frumvarpi ríkisstjórnarinnar verði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur fengið allar innsendar umsagnir um þessi mál og birt þær þá verði málið kynnt rækilega fyrir almenningi og fer vonandi beint þaðan til atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni.