139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir málið en mig langar að spyrja hann hvort í nefndinni hafi komið til tals úrræði sem vantar á Íslandi, til dæmis eins og menntun í afgreiðslustörfum. Það er sérstakt nám í Þýskalandi, er hluti af iðnnámi, en það vantar hér á landi og það vantar einnig kennslu í mörgum öðrum þjónustustörfum.

Það er nefnilega þannig að fólk hefur hæfileika á mismunandi sviðum. Sumir hafa meiri hæfileika í handverksátt og aðrir eru meira á bókina. Mér finnst eins og alltaf sé verið að stíla inn á það að menn læri á bókina í staðinn fyrir að læra það sem kannski stendur þeim nær, menn geta verið mjög handlagnir eða þjónustuliprir og þá vantar nám við hæfi.

Ég vil spyrja hv. þingmann, án þess að ég vilji tefja umræðuna neitt sérstaklega, hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni, hvort rætt hafi verið um að bjóða upp á meira úrval fyrir fólk sem er frá náttúrunnar hendi með mismunandi hæfileika.