139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[17:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágæt svör svo langt sem þau ná. Reyndar tel ég að ákvæðið um hlutaatvinnuleysi eigi við á öllum tímum. Ég man ekki betur en að fyrirtæki hafi farið á hausinn fyrir hrun líka og bara nokkuð oft. Fyrirtæki voru illa rekin eða lentu í áföllum. Það fylgir nefnilega atvinnurekstri að lenda í áföllum. Það er ákveðin áhætta í öllum rekstri og það getur gerst að fyrirtæki fari á hausinn þó að engin sök sé og þá geta menn einmitt notað ákvæði um hlutaatvinnuleysi til að þurfa ekki að segja upp allt of mörgum starfsmönnum í einu sem verða þá alveg atvinnulausir. Ég held að ákvæðið eigi við á öllum tímum, bæði fyrir og eftir hrun, þannig að við eigum að nota þá ágætu lausn sem fannst eftir hrunið.

Varðandi það að menn haldi réttindum sínum þá standa menn frammi fyrir því: Er betra að vera atvinnulaus og halda fullum rétti sem nýtist þá ekki neitt af því að fyrirtækið fór endanlega á hausinn eða er réttara að slaka á þeim hörðu réttindum sem kjarasamningar gefa? Það minnir mig á að mann sem gengur yfir götu á grænu ljósi og vörubíll kemur og ekur á hann og maðurinn deyr í rétti. Það er lítils virði að deyja í rétti. Ég mundi vilja að menn skoðuðu það frekar að vera ekki svona harðir á réttindunum.

Reyndar er talað um að heimilt sé að gera nýja kjarasamninga og það má vel vera að menn séu svo snöggir að gera þá að þeir geti afstýrt gjaldþroti. En þá geta menn lent í því að eitthvert verkalýðsfélag sem kemur málið ekkert við og hefur engan áhuga á atvinnuleysisbótum eða atvinnulausu fólki, segi nei af því að það vill ekki slaka á kröfunum.