139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[19:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. formanni iðnaðarnefndar, Kristjáni L. Möller, starfið í nefndinni gekk vel og nokkuð mikil samstaða var um þetta mál. Ekki verður mælt á móti því að Ísland hefur haft ákveðið forustuhlutverk í nýtingu á endurnýjanlegri orku þar sem við höfum verið í fremstu röð í heiminum af því að við notum jarðvarma til húshitunar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu gríðarlega mikilvægur áfangi það er hjá okkur að vera með allan þennan mikla fjölda, ætli það séu ekki yfir 90% heimila í landinu þar sem jarðvarmi er notaður til húshitunar. Sú þekking sem hefur skapast á þessum vettvangi hefur sett okkur í fremstu röð meðal þjóða.

Ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vorum með fyrirvara við þessa þingsályktunartillögu. Það sneri kannski fyrst og fremst að því háleita markmiði sem þar er að Ísland verði í framtíðinni í forustu við að nýta endurnýjanlega orkugjafa til samgöngumála. Við teljum að eðlilegra sé að setja sér raunhæf markmið í þessum efnum og þarna munum við ekki ein geta ráðið för. Það verða auðvitað framleiðendur farartækjanna sem ráða miklu um það hvað verður í boði á þessum vettvangi og við munum fylgja í kjölfarið. Þegar er hafin ákveðin þróun á breytingum í bílaflota landsmanna í þessa átt.

Einnig hefur verið hvatt til þess að við förum mismunandi leiðir í því að reyna að framleiða okkar eigin eldsneyti. Við þurfum að móta okkur ákveðna stefnu um það hvert skuli horfa í þeim efnum og kannski er eðlilegast til lengri tíma litið, ef við ætlum að horfa til þess að sem flestir geti nýtt sér farartæki sem nota endurnýjanlega orku, að horft verði til raforkunnar. Menn hafa verið að ræða mikið um framleiðslu á repju til að framleiða repjuolíu og breyta annarri ræktun í landinu jafnvel í þá átt en matvælaframleiðsla verður að vera trygg og hafa ákveðinn forgang þannig að horfa verður til þess af ákveðinni varúð.

Í tillögunum er hvatt til aukinna almenningssamgangna og það er auðvitað vel að hvetja til þess og reyna að þróa almenningssamgöngur með þeim hætti að þær verði áhugaverðari valkostur fyrir okkur í framtíðinni. En við megum heldur ekki gleyma því að við erum fámenn þjóð í stóru landi og það er ekki nema ákveðinn hópur landsmanna sem getur raunhæft náð þessum markmiðum að einhverju gagni. Við verðum að horfa til þess að á landsbyggðinni verður fólk bundnara einkabílnum en kannski víða á þéttbýlli svæðum eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er því aftur mikilvægt að taka tillit til hinna dreifðu byggða þegar við skoðum möguleika okkar og þær leiðir sem við veljum í þessum málum.

Í dag höfum við verið að hvetja til endurnýjunar á bílaflota okkar með skattalegum ívilnunum. Við erum að gefa skattafslátt af því eldsneyti sem framleitt er og notað á bifreiðar sem byggist á endurnýjanlegri orku og við höfum verið að fella niður aðflutningsgjöld af bifreiðum sem fluttar eru inn og hefur verið breytt á þann veg að þær geta nýtt þetta eldsneyti og af bifreiðum sem eru fluttar inn nýjar eða ónotaðar og verður þá breytt fyrir það eldsneyti. Þarna verðum við einnig að huga að því að aðgangur landsmanna að þessu eldsneyti verður mismunandi. Ekki er raunhæft að ætlast til þess að þeir sem stunda sölu og dreifingu á endurnýjanlegu eldsneyti muni fara inn á fámennari markaði á landsbyggðinni og við þurfum að huga að samkeppnisstöðu allra landsmanna þegar kemur að þessu.

Það er líka mjög mikilvægt að horfa til þess að við skattleggjum vegnotkun okkar í dag með eldsneytissköttum og notum góðan hluta af því fé til samgönguframkvæmda. Við verðum að fara að horfa til þessa og breyta áherslum okkar. Við verðum að jafna kostnað þeirra sem nota vegakerfið hvernig bifreiðum sem þeir aka. Augljósasti valkosturinn er að við tökum í framtíðinni upp einhvers konar veggjöld og þar þurfum við að horfa til fjöldans þannig að það komi sem jafnast niður á öllum landsmönnum. Ég hef gagnrýnt það að nú þegar við erum með hugmyndir um eflingar í vegagerð, og það er svo mikilvægt sem raun ber vitni að efla atvinnulíf — nú þegar eru verkefni tilbúin til framkvæmda en stjórnvöld hafa horft til þess að ekki verði hægt að stíga þau skref fyrr en búið er að ákveða með þessa framtíðarskattlagningu. Þannig hefur ráðherra samgöngumála lagt til að samhliða því að taka ákvörðun um frekari framkvæmdir verði tekin ákvörðun um veggjöld sem eigi að fara að innheimta eftir fimm ár. Ég hefði viljað horfa öðruvísi á þessi mál, virðulegi forseti, og fara strax af stað í þessar framkvæmdir á meðan við nýtum tímann til að endurskoða það hvernig við ætlum að skattleggja vegnotkun í landinu. En það þurfum við einmitt að gera með tilliti til þessa frumvarps, þ.e. með tilliti til þeirrar framtíðarsýnar sem við höfum með endurnýjun á orkugjöfum til samgöngumála. Við þurfum ekki síður að horfa til þeirra staðreynda að nýjar bifreiðar sem fluttar eru til landsins eru miklar eyðslugrennri en bifreiðar hafa verið þannig að þessir skattar munu, miðað við eldsneytisnotkun, skila okkur miklu minna í framtíðinni. Ég held að þessi endurskoðun þurfi að fara fram samhliða þeim háleitu markmiðum sem eru í þeim tillögum sem hér er talað um, og þar verði að horfa sérstaklega til þess að allir landsmenn sitji við sama borð.

Eins og ég sagði áðan erum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sammála og skrifum undir nefndarálitið en fyrirvari okkar nær til þess að við teljum mikilvægt að setja sér raunhæf markmið en ekki láta sér detta í hug að Ísland geti orðið í forustuhlutverki á þessum vettvangi í heiminum.