139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú ákvörðun nefndarinnar að leggja til breytingu á 1. gr. þegar kemur að gildissviði helgast einmitt af þeirri spurningu sem hv. þingmaður kom fram með. Við fórum að skoða þau mál sem gætu fallið undir gildissvið laganna með þeirri afmörkun sem felst í orðalaginu meðferð opinbers valds. Í ljós kemur að málefni sem tengjast opinberum hlutafélögum, t.d. mál á borð við Grímseyjarferjuna, svo maður nefni tiltekið dæmi, mundi ekki falla undir það gildissvið laganna. Við vildum víkka þetta út þannig að það væru mikilvæg mál sem varða hagsmuni almennings og það yrði auðvitað mat þingsins hverju sinni hvenær því úrræði yrði beitt.

Sú leið er til staðar að skipa rannsóknarnefnd þingmanna á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar en þingið getur líka ákveðið að búa til rannsóknarnefnd á borð við þá sem hér er smíðaður lagarammi í kringum. Þetta er auðvitað að því gefnu að önnur úrræði, önnur rannsóknarúrræði, dugi ekki til og að þingið meti það á þeim tíma að það sé mál sem varðar sérstaklega hagsmuni almennings. Það getur þá varðað að einhverju leyti eða farið inn á einkaréttarleg svið. Það getur líka farið inn á svið sveitarfélaganna, svo nefnd séu dæmi, en það er metið hverju sinni. Þetta er dýr leið, það er kostnaðarsamt að fara í þær rannsóknir sem hér um ræðir. Þær eru tímafrekar og mannaflsfrekar og verður að beita þeim í samræmi við það í undantekningartilfellum og þegar þau varða hagsmuni almennings miklu.