139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir hans ræðu. Jú, vissulega er það svo að oft þegar lögð eru fram frumvörp vekja þau ýmsar spurningar. Ég spyr, eins og hv. þingmaður, hvort við Íslendingar höfum yfir höfuð mannafla og fjármagn til að standa í þeim rannsóknum sem nú liggja fyrir þinginu. Eins og fram kom í ræðu minni í gærkvöldi um þetta sama mál lít ég þannig á, verði frumvarpið samþykkt, að þessum lögum verði ekki beitt nema önnur úrræði þrjóti.

Þingmaðurinn fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig það er, en Alþingi er fyrst og fremst löggjafi og á á hinn bóginn að hafa aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. En nóg um það. Við hv. þingmaður sitjum bæði í allsherjarnefnd og mig langar því að spyrja hann um þá breytingartillögu þar sem lagt er til að starfsgengisskilyrðin séu hert, verði starfsgengisskilyrði héraðsdómara, en í upphaflegu drögunum var einungis talað um að viðkomandi ætti að vera lögfræðingur. Formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, vildi meira að segja hafa þetta enn frjálslegra og ekki gera neinar menntunarkröfur. Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson: Er hann ekki fylgjandi því að nefndin geri þessa breytingu vegna eðlis málsins og þess hversu víðtækt vald er falið í frumvarpinu?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn að því hvernig hann sjái samspil rannsóknarnefnda og fjárlagagerðar til framtíðar, hvernig eigi að koma að þessu ákvæði um að kostnaður við starf rannsóknarnefnda skuli greiðast úr ríkissjóði. Hvernig sér hann það fyrir sér að það komi inn á fjárlög og annað?