139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:40]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við getum nefnt fleiri vegarspotta sem eru ferðaþjónustunni mjög til framdráttar og á döfinni. Ég nefni Suðurstrandarveg sem getur lyft mjög undir ferðaþjónustu á því svæði. Hv. þingmaður nefnir Uxahryggjaleiðina, hún er gott dæmi um það líka, og ég nefndi Dettifossveg. Enn fremur mætti nefna endurbætur á Bröttubrekku sem hafa mjög aukið á ferðaþjónustu á því merka svæði sem lýtur að mörgum helstu landnámssögum okkar Íslendinga, m.a. Laxdælu, sem vert er að kynna sér og er auðveldara að gera eftir að endurbætur voru gerðar á Bröttubrekku.

Almennt held ég að við verðum að horfa til þess, frú forseti, að leggja bæði áherslu á örugga flutningsþjónustu um vegi landsins og þar með breiðari vegi, og aukinheldur á fleiri svokallaða ferðaþjónustuvegi sem eru fyrst og fremst lagðir til þess að efla ferðaþjónustuna. Við sjáum þess dæmi í löndunum í kringum okkur að þar er þetta gert með þessum tvenna hætti, annars vegar nota menn vegina fyrst og fremst til flutninga og svo hins vegar aðra vegi í ferðaþjónustu. Þetta eigum við að gera í auknum mæli og þess vegna er ég afskaplega ánægður með að Uxahryggjaleið sé nefnd í þessu sambandi. Eins og Dettifossvegur er Uxahryggjaleið mjög gott dæmi um ferðaþjónustuveg sem ber að huga að.

Ég vil reyndar líka nefna einn veg sem tabú hefur ríkt um að nefna í þessu efni, veginn um Kjöl sem klárlega er mjög mikilvægur ferðaþjónustuvegur og á að byggja upp til að tengja betur (Forseti hringir.) Norður- og Suðurland, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna.