139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í lok ræðu sinnar, hvað það varðar að menn verði að hugsa aðeins lengra fram í tímann, ekki bara vikur mánuði eða örfá ár. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert.

Hann reifaði nokkrar hugmyndir sem eru margar athyglisverðar. Aðalatriðið er þó það, eins og hv. þingmaður benti á, að ef við stöndum ekki að uppbyggingu á ferðamannastöðunum og stýrum straumnum þangað þá getum við lent í því að þeir staðir bíði af því varanlegan skaða. Þá höfum við ekki mikið til að sýna, það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því. Hv. þingmaður reifaði athyglisverðar hugmyndir og brýndi fyrir okkur að við þurfum að hugsa fram í tímann. Það er ekki nóg að ætla að flytja inn hundruð þúsunda og jafnvel milljónir ferðamanna, og það innan örfárra ára, ef við erum ekki undir það búin að taka á móti þeim.

Mig langar líka að bregðast við því sem rætt var áðan milli hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þ.e. gistináttagjaldinu. Hæstv. utanríkisráðherra hafði orð á því að hann væri ekki hrifinn af því gjaldi en væri mikill friðarsinni og mundi hunskast, eins og hann orðaði það, til að samþykkja þessi lög. Hann velti upp þeirri hugmynd að hugsanlega væri hægt að hafa annað gistináttagjald á landsbyggðinni, öðruvísi gistinótt, eða fella það jafnvel niður yfir vetrartímann. Þetta eru allt athyglisverðar hugmyndir sem vert er að skoða. Nú sé ég að hæstv. utanríkisráðherra gengur í salinn og hann mun hlusta af athygli. Ég var einmitt að segja að það er nokkuð merkilegt að menn skyldu ræða þetta, mér hafði ekki dottið þetta í hug en þetta er athyglisvert.

Ég vildi beina því til hæstv. utanríkisráðherra, fyrst hann er kominn í salinn og hlustar vel, eins og hann er vanur að gera — hann sýnir okkur hv. þingmönnum mikinn sóma með því að vera miklu oftar viðstaddur en allir aðrir og jafnvel samanlagt jafnmikið og þeir allir saman. Þar sem hann er einn af máttarstólpum ríkisstjórnarinnar, (Gripið fram í: Er það?) — já, já, hæstv. utanríkisráðherra er það — held ég að það væri umhugsunarvert, og ég hef svo sem fjallað um það áður, hvað við erum að gera með þessum mikla niðurskurði í vegagerð. Þar erum við að draga mikið saman, bæði í framkvæmdum og viðhaldi. Burtséð frá því hvaða áhrif það hefur á efnahagslíf þjóðarinnar og hagvöxt þá höfum við skorið rosalega harkalega niður þar og það eitt og sér er mjög slæmt.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi réttilega, í andsvari sínu áðan, Látrabjarg, sem er mikil náttúruperla og margir sem þangað koma. Því miður er vegurinn þangað mjög slæmur, einn af mörgum. Maður þyrfti að hafa langan ræðutíma til að fara yfir það hvað þyrfti að gera í vegamálum, en hæstv. utanríkisráðherra nefndi þetta.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra sinnir því starfi mjög samviskusamlega að vakta hagsmuni Árneshrepps, er sérstakur erindreki og áhugamaður um það og tekur iðulega þátt í þeirri umræðu sem snýr að því litla og fallega sveitarfélagi, vil ég geta þess að þar er fólk að byggja upp ferðaþjónustu og þar eru vegirnir helsta hindrunin. Ég vakti athygli á því áðan að undir styrkri stjórn fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, Kristjáns L. Möllers, er þessu breytt í meðförum iðnaðarnefndar, þingsályktunartillögu um byggðaáætlun. Það er mikilvægt að setja inn þetta ákvæði, að gera sér grein fyrir því hversu mikils virði samgönguþátturinn er í atvinnuuppbyggingu sem snýr að ferðaþjónustunni. Það er mjög sérkennilegt að það skyldi ekki hafa verið í upprunalegu tillögunni og að þessu hafi verið breytt undir vökulu auga hv. þingmanna sem sitja í iðnaðarnefnd.

Mér er líka skylt að nefna veginn um Barðaströnd. Af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi Látrabjarg réttilega þá verður nú fyrst að komast fyrst yfir Barðaströndina og þar er allt steinastopp eins og allir þekkja einmitt út af Teigskógs-málinu. Þeir ferðaþjónustuaðilar sem þar starfa segja að þangað komi fólk sem er búið að vera að reyna að ferðast þessa vegi. Það fólk segir einfaldlega við þá ferðaþjónustuaðila sem þar eru: Þangað munum við ekki koma aftur og alla vega ekki fyrr en búið er að laga vegina. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hversu mikilvægt það er að byggja vegina upp og sinna viðhaldi því að nú er það líka að fara, búið er að skera mjög mikið niður í viðhaldi, sem er mjög slæmt.

Eitt að lokum, virðulegi forseti, sem ég vil biðja hæstv. utanríkisráðherra að hugsa um. Það eru þessar tölur sem voru fyrirsjáanlegar um samdrátt í umferð. Við, margir stjórnarandstöðuþingmenn, vöruðum við því og þingflokkur sjálfstæðismanna flutti tillögu um lækkun á eldsneytisálögunum. Nú sjáum við að samdráttur er orðinn gríðarlega mikill í umferð og það sjá allir sem vilja að þeir ferðaþjónustuaðilar sem búa lengst úti á landsbyggðinni, hvort sem það er fyrir vestan eða austan eða norðan, eða hvar sem þeir eru, eru mjög uggandi um að þetta muni draga úr því að ferðamennirnir, hvort heldur sem þeir eru innlendir eða erlendir, komi til þeirra staða sem búið er að byggja upp í áraraðir af miklum myndarbrag fyrir mikla fjármuni. Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem getur orðið til þess að þessir ferðaþjónustuaðilar úti á landsbyggðinni, sem búa lengst frá höfuðborgarsvæðinu þangað sem massinn kemur, hvort heldur er í gegnum Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll, eða hvernig sem það er — hann kemur inn á suðvesturhornið og þess vegna er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég vitnaði til áðan er einmitt talað um að dreifa ferðamönnunum um landið sem er að sjálfsögðu mikilvægt til að allir geti byggt upp ferðaþjónustu og ferðamennirnir geti fengið að sjá sem mest af landinu. Það er umhugsunarefni hvernig eigi að bregðast við. Meðan eldsneytisverðið er eins og það er og álögurnar þessar þá er þetta alveg gegndarlaust. Það er því mjög mikilvægt að menn skoði ekki bara einn hluta heldur sjái heildarsamhengið. Á meðan við erum með þessa gríðarlegu álagningu á eldsneytið mun þetta geta haft áhrif. Það eru mjög margir vegir sem þarf að byggja upp og sinna og það kostar jafnvel ekki mikla peninga að gera aðganginn að þessum ferðamannastöðum þannig að fólk yfir höfuð komist þangað og langi almennt til þess.

Áður en vegurinn fyrir Jökul, eða í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, var malbikaður sneri fólk oft og tíðum við þegar það kom yfir á malarvegina og í moldarflögin. Það hefur breyst. Þetta er það sem menn þurfa að horfast í augu við. Ekki er nóg að setja fram einhvern texta í einhverjum tillögum heldur verður að framfylgja því sem þar stendur. Þetta tvennt vil ég biðja hæstv. utanríkisráðherra um að hugleiða og koma skýrum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar, sérstaklega þar sem hann er fulltrúi íbúa í Árneshreppi og hefur látið sig mál þeirra mjög varða. Við megum ekki hætta uppbyggingu í vegagerð, við megum ekki minnka viðhaldið á vegunum og við verðum að taka til endurskoðunar álögur á bensín og eldsneyti til að fólk og ferðamenn fari á þessa staði. Það getur munað háum upphæðum fyrir fjölskyldu hér á suðvesturhorninu hvort hún keyrir austur á land, norður í land, vestur á firði, á Suðurlandið eða upp í Borgarfjörð. Fólk mun hugsa sig um þegar kaupmátturinn hefur rýrnað jafnmikið og hann hefur gert, ráðstöfunartekjur heimilanna. Þetta mun hugsanlega geta haft áhrif á, og ég hræðist það mjög, uppbyggingu ferðaþjónustu sem stendur ekki næst suðvesturhorninu.

Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra mun koma þessum skilaboðum til hæstv. ríkisstjórnar. Hún mun þá hugsanlega taka til við að fjalla um það mál sem við höfum lagt fram og hv. þingmaður, formaður okkar flokks, er fyrsti flutningsmaður að, um að lækka álögur á eldsneyti þannig að hægt sé að fara eitthvað um. Tölur sýna hvað hefur gerst, aldrei hefur verið jafnmikill samdráttur í umferð á landinu. Það eigum við að taka sem aðvörun og læra af því og bregðast við því áður en það verður um seinan.