139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, vissulega er þetta mjög alvarlegt mál og það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á, hættan er sú að maður aðlagist aðstæðum. Mannfólkið hefur ótrúlega mikla aðlögunarhæfni og það aðlagast nefnilega jafnvel skelfilegustu aðstæðum. Kannski er það til marks um það að við séum komin hættulega nálægt því að aðlagast aðstæðum að við erum farin að grínast með hlutina því að það er leið til að takast á við óbærilegar aðstæður. Þetta gerðu menn mikið í Austur-Þýskalandi, menn töluðu um pólitík í bröndurum sem þó máttu náttúrlega ekki heyrast opinberlega. Einn þekktasti brandarinn var um Erich Honecker, sem var aðalritari flokksins, og sólina. Erich Honecker vaknaði einn morguninn, leit út um gluggann og bauð sólinni góðan daginn. Og sólin sagði: Góðan dag, kæri Honecker. Honecker fór í vinnuna og í hádeginu leit hann út um gluggann á skrifstofunni og sagði: Komdu sæl, sól. Sólin svaraði að bragði: Sæll, elsku, ástkæri leiðtogi Honecker.

Svo er farið að halla af degi og það er að koma kvöld og Honecker röltir heim úr vinnunni og segir: Gott kvöld, sól. Og sólin svarar: Farðu í rass og rófu, Honecker, nú er ég í vestrinu. Þetta er lýsandi fyrir ástandið í Austur-Þýskalandi, ástandið var skelfilegt en menn reyndu að komast í gegnum það með gríninu.

Til að svara síðasta hluta andsvars hv. þingmanns held ég einmitt að niðurstaða útboðs Seðlabankans í dag sýni að þrýstingurinn er ekki jafnmikill og menn óttast. Við það bætist að þegar gjaldeyrishöftunum er aflétt sýnir það vonandi að við séum komin með trú á eigin efnahag. Þetta verður svona sjálfrætandi spádómur, þegar menn viðhafa gjaldeyrishöft eru send út skilaboð um að við höfum (Forseti hringir.) ekki trú á eigin efnahagslífi og það dregur niður (Forseti hringir.) stöðu þess.