139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir áhugaverða og skemmtilega ræðu sem bar þess merki að þar á bæ eru menn öllum hnútum kunnugir varðandi efnahagssögu austur-þýska alþýðulýðveldisins. Mér fannst það til mikils sóma hvað hv. þingmaður fór yfir alla þá sögu af mikilli þekkingu og hélt ræðu sína af miklum þrótti. (Gripið fram í: Eins og hans er von.)

Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem lagt er til að austurríska leiðin svokallaða verði lögfest. Hún gengur út á að vísa brotamönnum út af eigin heimilum, allt gott um það að segja, og ýmislegt bendir til að það frumvarp verði að lögum. Ég held að þetta frumvarp standi hins vegar vel undir þeirri nafngift að vera kallað austur-þýska leið ríkisstjórnarinnar í gjaldeyrismálum. Það þarf ekki annað en að lesa passus úr nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fjármagnshreyfingar milli landa merkja í skilningi frumvarpsins annars vegar yfirfærslu eða flutning á fjármunum sem á sér stað til og frá landinu og hins vegar yfirfærslu og flutning á milli innlendra og erlendra aðila. Er lagt til að þær verði að meginstefnu til bannaðar …“

Það er ótrúlegt að lesa svona texta á Íslandi árið 2011 en ekki upp úr einhverjum gömlum þingskjölum í Austur-Þýskalandi.

Frá þessu eru veittar undantekningar sem Seðlabankinn fær og ég vil bera undir hv. þingmann: Verði þetta frumvarp að lögum má þá ekki líta svo á að (Forseti hringir.) Seðlabanki Íslands verði í rauninni ríki í ríkinu? Það er hann sem veitir (Forseti hringir.) þessar undanþágur án þess að menn viti hverjir fá þær og á hvaða forsendum. (Forseti hringir.) Elur þetta frumvarp ekki á fullkominni spillingu hér á landi?

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta að ræðutíma.)