139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Daglega heyrum við nú fréttir af lífláti mótmælenda, nú síðast í Jemen og Sýrlandi. Málstað þessa fólks eigum við að gera að okkar, en spurningin er hvernig við gerum það.

Hér er allt of stuttur tími til að ræða þetta mál af nokkru viti en ég vil nefna nokkra punkta. Vesturveldin hafa í gegnum tíðina stutt við bakið á harðsvíruðustu einræðisherrum um víða veröld þegar þeim hentar og gera enn. Bandamenn verða á einni nóttu fjandmenn þegar þeir hætta að þóknast stórveldunum. Frönsku vopnin sem Sarkozy seldi Gaddafí fyrir stuttu fyrir billjónir tala sínu máli. Og á meðan Berlusconi hefur ekki undan að snúa þurfandi flóttamönnum í burtu frá landamærum Evrópu, væntanlega af mannúðarástæðum, er verðugt að rifja upp blóðuga sögu Ítala á líbískri grund.

Það er olía sem smyr þessa stríðsvél eins og ýmsar aðrar. (Gripið fram í.) Stóra spurningin er hins vegar þessi: Hvað tekur við þegar árásum sleppir? (Gripið fram í.) Reynslan varar okkur við kviksyndi enn meiri upplausnar og eyðileggingar eftir að hið eiginlega stríð er sagt vera á enda. Þegar upp er staðið eru og verða hernaðarveldin ófær um að veita þau svör sem hinir hugrökku einstaklingar hins arabíska vors eru að leita að.

Íslendingar eru herlaus þjóð og eiga fyrir vikið ekki heima í hernaðarbandalagi. Að forminu til geta aðildarríki NATO haft neitunarvald. Fyrir Ísland jafngilti það að segja sig úr lögum við hernaðarbandalagið. (Gripið fram í.) Það viljum við Vinstri græn, (Gripið fram í.) um þetta erum við stjórnarflokkarnir ósammála, eins og allir vita. Það er svo einfalt, eins og hv. málshefjandi veit fullvel, að hæstv. utanríkisráðherra hefur þingstyrk á bak við sig í þessum efnum eins og margsinnis (Gripið fram í.) hefur verið bent á. Þessu getur hv. málshefjandi Bjarni Benediktsson hins vegar breytt með því að ganga til liðs við Vinstri græna í afstöðu okkar í þessum efnum.

Að lokum þetta vegna umræðunnar sem hér hefur skapast, það hefði verið vel, það hefði verið fagnaðarefni (Forseti hringir.) ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefði ekki verið svo einhuga um innrásina í Írak, (Forseti hringir.) hefði einmitt verið klofin, að þar hefðu komið fram (Forseti hringir.) andstæðar skoðanir og fólk sagt skoðun sína (Forseti hringir.) þvert á það sem fyrirmæli voru um. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það (Gripið fram í.) hefði verið Íslandi til sóma. [Kliður í þingsal.]