139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið til umræðu hvernig mál í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var tekið út í morgun. Það hefur legið fyrir frá því að málið kom hingað inn að til stæði að afgreiða það á þessu vorþingi. Þannig hefur verið unnið áfram með það.

Komið hefur verið til móts við stjórnarandstöðuna með því að taka út úr frumvarpinu ýmis álitamál og vísa því til vinnu í stóra frumvarpinu. Við höfum mætt stjórnarandstöðunni. Fram hafa farið (Gripið fram í.) miklar umræður í nefndinni. Lagðar voru fram tillögur til sátta í síðustu viku og aftur í þessari viku. Ég taldi, og meiri hluti nefndarinnar, að lengra væri ekki komist.

Við ætlum að klára þetta frumvarp til að skapa vinnu á þessu sumri, ekki veitir nú af. Þær tillögur sem liggja fyrir koma til móts við stjórnarandstöðuna. Mér finnst rétt að málið komi inn í þingið og þá geri stjórnarandstaðan grein fyrir (Forseti hringir.) því út af hverju hún leggst gegn byggðakvóta og strandveiðum. Hér er þá (Forseti hringir.) vettvangur til að gera grein fyrir því.