139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur sem leggur nú yfirleitt alltaf gott til málanna þegar svona staða kemur upp í þingsal. En hvað sem því líður er það staðreynd að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom og lýsti því hvernig til stæði að afgreiða þetta mál og það lægi ljóst fyrir.

Hv. þingmaður sat í þingmannanefndinni sem var samþykkt með þingsályktunartillögu um að breyta vinnubrögðum Alþingis. Hver er síðan staðan? Málið kemur eftir að hafa verið átta mánuði í einhverjum þröngum hópi stjórnarliða, kemur vanbúið inn í þingið, því er hent þannig fram. Allar umsagnir, ég ítreka það, að allir þeir sem veittu umsagnir fengu beiðnir, sumir hverjir á föstudagskvöldi, t.d. Sjómannasamtökin, um að skila umsögn og mæta til fundar á mánudagsmorgni, og sjómannadagshelgin var fram undan.

Þess vegna segi ég enn og aftur, virðulegi forseti, ég óska eftir því að það verði rætt í forsætisnefnd, þ.e. þá vanvirðingu sem sumum gestum fastanefnda þingsins er sýnd með því hvernig hv. þingmenn mæta á nefndarfundi. (Forseti hringir.) Það er til ævarandi skammar.