139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ábendingar Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun.

616. mál
[15:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina.

Því er til að svara varðandi staflið a, b og c að svör og afstaða ráðuneytisins er í raun sú sem fram kom í bréfi ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun var í vinnslu og ráðuneytið hafði aðstöðu til að koma sjónarmiðum sínum þar á framfæri. Þá var í svarinu fyrst og fremst vísað til þess að nú væri í undirbúningi að hefja heildarendurskoðun á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og eðlilegt væri að ábendingar Ríkisendurskoðunar yrðu teknar inn í þá vinnu. Ljóst er að slík vinna þarf að fara fram í nánu samráði við heildarsamtök stéttarfélaga, enda er um það áskilnaður í lögum að um breytingar á slíkum hlutum ber að hafa samráð og í raun lögbundið samráð.

Hvað varðar lið d, hvort auka þurfi aðstoð við forstöðumenn í starfsmannamálum vil ég ítreka mikilvægi þess að starfsumhverfi ríkisstarfsmanna sé þannig að stjórnsýslan geti laðað til sín hæft fólk og sinnt hlutverki sínu á skilvirkan og árangursríkan hátt. Það er þörf á að hyggja sérstaklega að þeim hlutum um þessar mundir. Ég lagði minnisblað fyrir ríkisstjórn 12. nóvember um áherslur ríkisins í starfsmanna- og mannauðsmálum. Þar kemur m.a. fram, í því minnisblaði, ég held ég hafi vitnað til þess áður í fyrirspurnum á Alþingi, að við munum auka sérstaklega aðstoð við forustumenn og forstöðumenn í starfsmannamálum. Það hefur þegar verið ákveðið og vilyrði eða sammæli um slíkt er líka að finna í bókunum sem tengjast yfirstandandi kjarasamningum.

Þetta verður gert m.a. með markvissri innleiðingu á aðferðum mannauðsstjórnunar hjá ríkisstofnunum með auknum stuðningi við framkvæmd starfsmannamála hjá stofnunum, t.d. með því að styðja við markmið hverrar stofnunar fyrir sig og með því að framkvæma reglubundið eftirlit í launa- og starfsmannamálum þannig að árlega sé metið hvort stofnanir uppfylli kröfur um heildstæða stefnu og nái þeim árangri í þeim efnum sem að er stefnt.

Það er því verið að reyna að efla þessa þætti og rétt og skylt að gera það. Við munum verja auknum fjármunum og mannafla eftir því sem mögulegt er til þess að aðstoða forstöðumenn, stofnanir og önnur ráðuneyti í þessum efnum. Fjármálaráðuneytið hefur eðli málsins samkvæmt forgöngu um þá vinnu.

Ég ætla ekki að fara efnislega inn í einstaka þætti sem lúta að breytingum á lögum um réttindi og skyldur. Það er t.d. ljóst að ýmislegt sem lýtur að starfslokum og því hvernig að þeim hlutum er staðið þarf að samræma. Alþingi og ráðuneyti sem hafa verið að leggja fram frumvörp, t.d. í tengslum við sameiningu stofnana eða breytingar af því tagi, hafa í mörgum tilvikum farið mismunandi leiðir. Það hefur ekki verið fullt samræmi í því, svo það sé nú bara sagt, hvernig menn hafa búið um það hver réttindi manna við yfirfærslu eða niðurlagningu stofnana eru, hvort menn eigi rétt á sama starfi eða forgangi til starfa og annað í þeim dúr. Frágangur á þessu hefur verið mismunandi og ekki síst hefur Félag forstöðumanna vakið athygli fjármálaráðuneytisins á því að á samræmi skorti í þessum efnum. Ég hygg að það sé rétt. Það kemur í ljós að innan Stjórnarráðsins hafa verið ólíkar hefðir í gangi. Það er því svolítið mismunandi eftir því hvaðan frumvörp hafa verið ættuð sem tengjast þeim málum hvernig um svona hluti hefur verið búið. Það er að sjálfsögðu ekki eins og það ætti að vera. Það ætti að vera ein samræmd stefna sem gilti við sambærilegar aðstæður.

Ég tel að full þörf sé á því að fara vel yfir þessi mál og að sjálfsögðu að taka til greina ábendingar Ríkisendurskoðunar sem eru gagnlegar. En fyrst og síðast er mikilvægt að ná um þetta góðu samstarfi við samtök starfsmanna og forstöðumenn þannig að breytingar í þessum efnum séu unnar í eins mikilli sátt og kostur er.