139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ábendingar Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun.

616. mál
[15:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og heiðarleg svör. Ég fagna því sérstaklega að menn ætla að skoða ábendingar Ríkisendurskoðunar varðandi þetta efni og um leið fagna ég innleggi hv. þm. Péturs Blöndals um þetta mikilvæga málefni er tengist starfslokum, uppgjöri getum við kallað það, en ekki síður áminningarskyldu forstöðumanna og ráðherra. Sem betur fer hefur það farið minnkandi að stofnanir fari fram úr en það hefur gerst og gerist enn að stofnanir eru lendi í framúrkeyrslu.

Það eru nefnilega ekki hæg heimatökin fyrir ráðherra að beita í rauninni því eina vopni sem hann hefur, sem er áminningarferlið, því að það er þunglamalegt og erfitt. Eftirlitsskylda og aðhaldið af hálfu ráðherra og ráðuneytis er því ekki jafnsterkt og það þyrfti að vera eins og raun ber vitni þegar kemur að framúrkeyrslu hjá stofnunum. Fyrir vikið erum við ekki með þetta sterka aðhald sem þarf að vera þegar kemur að útdeilingu fjármuna, skattpeninga almennings.

Ég hvet því ráðherra til þess að skoða þetta sérstaklega þó að ég, ekki í neinu bjartsýniskasti, viti að það frumvarp sem lagt hefur verið fram af minni hálfu og annarra sjálfstæðismanna um einmitt breytingar á lögunum um réttindi og skyldur þingmanna, nær svo sem ekki fram að ganga á þessu þingi, (Gripið fram í: Við skulum vona.) en lengi má manninn reyna.

Um leið vil ég ítreka það við ráðherra og undirstrika að mikilvægt er að þessi mál komi fram fyrr en síðar. Það þarf að endurskoða þetta. Þau lög og sú löggjöf sem er í gildi núna er barn síns tíma. Hún er í engu samræmi við þá kröfu sem við gerum núna um mjög sterka aðhaldskröfu um það hvernig við beitum fjármagni og í hvaða farveg við beinum fjármunum (Forseti hringir.) ríkisins.