139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeim fjármunum sem eyrnamerktir eru til nýframkvæmda í samgöngumálum, 6 þús. milljónum rúmum, verður varið til framkvæmda, það er í góðum farvegi eins og áætlanir stóðu til.

Varðandi nefndina sem ræðir framkvæmdir í tengslum við kjarasamninga þá hefur hún komið saman. Viðræður höfðu farið fram í lok síðasta mánaðar. Sú nefnd hefur komið saman.

Það er vísað í fund með sveitarstjórnarfólki af Suðurlandi og Reykjanesi fyrir fáeinum vikum, við höfum hist í tvígang. Þar kom fram mjög eindregin andstaða við vegtolla á þessu svæði, mjög afdráttarlaus andstaða gegn því.

Af hverju er ekki farið af stað með þessar framkvæmdir? Það er vegna þess að við erum komin frá árinu 2007. Við viljum sjá fyrir endann á fjármögnun á þessum miklu framkvæmdum sem þegar allt kemur saman er um 40 milljarðar kr. — 40 milljarðar á fimm árum, það er það (Forseti hringir.) sem við erum að tala um. Við viljum vita hvernig við ætlum að fara að því að borga fyrir þetta.