139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[13:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við atkvæðagreiðsluna eftir 2. umr. sat ég hjá við afgreiðslu þessa máls og fór fram á það að málið færi aftur til allsherjarnefndar á milli 2. og 3 umr. vegna þess að ég taldi að ekki hefði verið tekið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga sem ég hafði bæði við 1. og 2. umr. Ég óskaði þar með eftir að kallað yrði eftir gestum sem hefðu reynslu og þekkingu af því að starfa í rannsóknarnefndum. Við því var orðið og þakka ég allsherjarnefnd kærlega fyrir hversu vel hún hefur unnið málið sem og þeim lögfræðingum sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi áðan. Þetta mál er orðið mjög gott, mun betra en þegar það kom inn í þingið.

Að lokum vil ég koma þeirri hvatningu á framfæri við forseta að við flýtum afgreiðslu á 20. máli, um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þetta er tillaga sem byggir á þessu frumvarpi og öðru frumvarpi sem ég flutti um rannsókn á (Forseti hringir.) sparisjóðunum. Við samþykktum 63:0 að fara í þessa rannsókn og það er kominn tími til að drífa okkur af stað í það ferli.