139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skattar í vanskilum.

[14:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er væntanlega í bókhaldi ríkisins, þetta er fært í bókhald ríkisins og stendur þar þangað til það er afskrifað. Þegar hvert ár fyrir sig er gert upp er að sjálfsögðu eingöngu gengið út frá þeim greiðslum sem hafa verið inntar af hendi. Það er ekkert launungarmál að fyrirtækin hafa mjög mörg átt í miklum erfiðleikum og ýmislegt hefur verið gert til að aðstoða þau í þeim efnum, samanber það sem ég sagði áðan um að greiða upp vangoldna skatta, gera þá upp með skuldabréfi. Sömuleiðis má nefna þá gjalddagaaðlögun sem hefur verið í gangi og tvímælalaust hefur auðveldað fyrirtækjum að vera í skilum þó að þau fái að dreifa gjalddögum umfram það sem áður var. Ég held að það séu ekki eins miklar breytingar að þessu leyti og jafnvel mætti ætla vegna ástandsins sem hér hefur verið síðustu tvö eða þrjú árin og ekkert endilega rétt að menn gefi sér að á komandi árum verði öllu meira afskrifað en það sem þegar hefur verið afskrifað undanfarin ár. (Forseti hringir.) Að vísu hverfa sum fyrirtæki úr rekstri, eru gerð upp og ekkert fæst upp í skuldir. Skattkröfur eru ekki forgangskröfur, því miður, sem menn hefðu betur ekki breytt en þá afskrifast auðvitað í slíkum tilvikum háar fjárhæðir.