139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni að óneitanlega er það kómísk hlið í öllum alvarleikanum, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að nú séu stjórnarflokkarnir að taka niður kvótakerfi í fiskveiðum með hægri hendinni og byggja upp kvótakerfi í andrúmslofti með þeirri vinstri. Vegna þess að ekki þarf að skila þessu aftur til ríkisins, eins og hv. þingmaður minntist á, koma upp ýmsir möguleikar, það koma upp möguleikar á því að hér verði til eins konar loftgreifar eins og ég nefndi áðan.

Ég vil að lokum segja almennt um þetta mál að ég held að það sé mjög til framfara. Andrúmsloftið er takmörkuð auðlind. Æskilegt er að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og gera það á sem hagkvæmastan hátt. Þetta er hagkvæm leið til að gera það. Ég er jafnframt sammála því að úthluta fyrirtækjunum megninu af kvótanum ókeypis og tel að það sé hvatning fyrir fyrirtækin til að spara fjármuni í rekstrinum með því að reyna að minnka útblásturinn. Ég held því að þetta sé hið besta mál.