139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Mér fannst hann komast að kjarna málsins varðandi það sem ég óttast svo mjög, verði þetta frumvarp að lögum, þ.e. að stóriðjuleki verði úr Evrópusambandinu og frá Íslandi til hinna vanþróuðu landa þar sem mengunin verður langtum meiri því að þar eru álver jafnvel knúin með kolum og þess háttar á meðan fallvötn knýja álverin okkar hér á landi. Ef þessar heimildir hækka mjög í framtíðinni verður það hindrun fyrir atvinnulífið og fyrirtæki koma þess vegna ekki hingað til lands þar sem þetta kerfi er notað, við hv. þingmaður erum alveg sammála um það.

Það sem kemur fram í áliti fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um hvað Evrópuvæðing Samfylkingarinnar kostar hér á landi hefur lítið verið rætt hér. Þar kemur fram að það kosti tæpar 50 milljónir á ári að reka þetta kerfi hér á landi auk 20 millj. kr. stofnkostnaðar árið 2012 þegar kerfið verður tekið í notkun, og ekki nóg með það heldur á að reka hér kerfi sem er nú þegar í gangi og veitt var 30 millj. kr. til á fjárlögum 2006–2008. Það á að reka það samhliða evrópska kerfinu til að halda líka utan um loftslagskvótann. Hvaða peningabruðl er á ferðinni? Er þetta nú ekki aðeins of dýru verði keypt að koma fram með frumvarp sem leggur til svona mikinn útgjaldaauka? Það er ekkert í fjárlögum þessa árs eða næsta sem (Forseti hringir.) gerir ráð fyrir því?