139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:43]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn á það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið yfir og þau fögru orð sem þeir hafa látið falla um þjóðkirkjuna, en mig grunar nú að málflutningur þeirra hafi meira með það að gera að tefja þingstörf og koma sjávarútvegsmálinu í gegnum þingið en umhyggju fyrir þjóðkirkjunni.

Það er tvennt sem mig langar að fjalla hér um, það er annars vegar að málið sjálft skuli liggja fyrir þinginu og hins vegar þau orð sem hér hafa verið látin falla um nýsamþykkta stefnu mannréttindaráðs Reykjavíkur.

Þetta mál ber hér yfirskriftina Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar. Það frumvarp til laga sem við höfum fyrir framan okkur er stutt en 1. gr. hljóðar svo örlítið stytt, með leyfi forseta:

„Nú er sóknarpresti eða presti veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum og getur þá biskup Íslands falið öðrum presti að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2015.“

Það sem mér finnst sérstakt er að þetta mál skuli vera hér fyrir þinginu, að Alþingi Íslendinga skuli vera að fjalla um starfshætti tiltekins trúarhóps í samfélaginu, þó að hann sé náttúrlega sá langstærsti. Það kemur náttúrlega til vegna þess að í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ekki kveðið á um aðskilnað ríkis og kirkju og við tölum um þjóðkirkjuna. Það er mjög brýnt að mínu mati að þessu verði breytt, að við bregðumst við breyttum heimi, nýrri samfélagsskipan þar sem einn af hverjum fimm Íslendingum tilheyrir ekki hinni svokölluðu þjóðkirkju. Þar er mikil breyting á frá því sem var bara fyrir nokkrum árum. Við búum ekki bara við fjölþjóðlegt samfélag í dag heldur hafa fjölmargir einstaklingar yfirgefið þjóðkirkjuna vegna stefnu hennar og framkomu í hinum ýmsu málum á síðustu 20 árum. Ég undrast því að hið háa Alþingi Íslendinga skuli vera að fjalla um þau mál sem hér komu upp og tel að það sé í raun langbest fyrir þjóðkirkjuna að hún fjalli sjálf um sín innri málefni og hafi allt um þau að segja án þess að Alþingi skipti sér af. Það er í rauninni mjög óeðlilegt að Alþingi íhlutist til um rekstur, tæknilegar útfærslur, innan trúarfélaga.

Það var fyrsta atriðið sem mig langaði að koma inn á. Í öðru lagi var það málflutningur þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem stigu í pontu. Þeir eru augljóslega fastir í fortíðinni. Ég veit ekki hvort þeir eru enn þá staddir í tímanum fyrir hrun eða ef til vill mun fyrr en það, í gamla veruleikanum þegar nærri allt íslenska samfélagið tilheyrði þjóðkirkjunni. Eins og ég sagði áðan er sú staða ekki lengur þannig á landinu. Nokkuð stór hluti barna í grunnskólum landsins er ekki í þjóðkirkjunni, á ekki foreldra sem er í þjóðkirkjunni.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru í hörðum orðum nýsamþykkta áætlun eða stefnu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að koma á jafnræði á milli trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í skólum landsins og þá stefnu mannréttindaráðsins að reyna að koma í veg fyrir að hin svokallaða íslenska þjóðkirkja misnoti þá aðstöðu og það aðgengi sem hún hefur haft að skólum landsins. Hvernig hún hefur t.d. notað fermingarfræðsluna til þess að koma trúboði sínu á framfæri innan skólanna sem á engan veginn heima í ríkisreknum skólum sem reknir eru á vegum sveitarfélaga. Ég held að þar hafi verið stigið mjög mikið framfaraskref hjá Reykjavíkurborg. Það hljómar kannski eins og við séum að ræða um borgarmálefni en þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku þetta mál upp. Það var mjög mikilvægt skref sem mannréttindaráð Reykjavíkurborgar steig til að jafna rétt lífsskoðunarfélaga og trúfélaga til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og lagði með því áherslu á að skólastarfið tæki mið af þeim raunveruleika og því fjölþjóðlega samfélagi sem við búum við.

Svo er það einfaldlega þannig að kirkjan hefur því miður ekki staðið sig í stykkinu. Það er ekki nema von að menn vilji stöðva þá misnotkun sem átt hefur sér stað á skólastarfinu og hvernig kirkjan hefur smám saman smokrað sér þangað inn, t.d. í nafni fermingarfræðslu, á sama tíma og samkynhneigðir voru fordæmdir af kirkjunni og mjög svo stór og ljót orð látin falla af hvorki meira né minna en biskupi íslensku þjóðkirkjunnar, svo stór orð að þau verða sennilega seint eða aldrei fyrirgefin. Svo þykir undarlegt að fólk rísi upp og spyrji hvort það séu sumir þessara presta sem menn vilji fá inn í skólastofurnar til að tala við börnin okkar.

Það hefur að vísu margt gott gerst á vegum þjóðkirkjunnar og þar hefur ríkt ágreiningur um hvernig tekið er á málefnum samkynhneigðra. Kirkjan hefur sem betur fer líka reynt að taka á málefnum kvenna innan hennar og vonandi leiðir það starf gott eitt af sér.

Það er mjög mikilvægt í samfélagi okkar, hvort sem við lítum á þingið eða samfélagið í heild, inn í ríkisstofnanir eða skóla, að skipulagt trúboðsstarf fari ekki fram innan vébanda ríkisstofnana og að við horfumst aftur í augu við það fjölþjóðlega samfélag sem við búum við og þá staðreynd að einn af hverjum fimm Íslendingum hefur kosið að vera ekki innan hinnar svokölluðu íslensku þjóðkirkju. Ég vona svo sannarlega að við gerð tillagna nýrrar stjórnarskrár verði tekið á þessum málum og að öllum trúarhreyfingum og lífsskoðunarfélögum verði gert jafnhátt undir höfði. Það er í rauninni skylda Alþingis að stuðla að því að svo sé í nafni lýðræðis og mannréttinda.