139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þm. Pétur H. Blöndal erum eindregið sammála um að það er mikilvægt að jafna lífeyrisréttinn í samfélaginu. Það er þess vegna fagnaðarefni að ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur sannarlega tekið skref í þá átt, m.a. gengið á undan með góðu fordæmi í að afnema þau fáránlegu sérréttindi í lífeyrismálum sem fyrri ríkisstjórn innleiddi undir forustu Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingismenn og ráðherra með réttindi fyrir reikning skattgreiðenda sem voru úr öllu samhengi við lífeyrisréttindi fólksins almennt í landinu. Það er mikilvægt í framhaldi af því að jafna réttindi á almenna markaðnum og hinum opinbera og ég held að það sé líka mikilvægt að takast á við þá skuld sem við eigum að gjalda í opinberu sjóðunum af því að við höfum ekki safnað nægilega í þá til framtíðar.

Að öðru leyti vil ég svo aftur þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og kannski inna hann að lokum eftir því hvort hann gleðjist ekki yfir því að hrakspár minni hlutans um að tekjuöflunaraðgerðir ríkissjóðs gengju ekki eftir, að skattbreytingarnar mundu ekki skila tilætluðum tekjum, hafa að engu orðið eins og spárnar um fjölgun öryrkja heldur hafa tekjurnar einfaldlega skilað sér með þeim breytingum (Forseti hringir.) sem gerðar hafa verið. Er það ekki ánægjulegt og hluti af þeirri mikilvægu endurreisn sem hér er að verða í efnahagsmálum?