139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú tekur maður óneitanlega eftir því í umræðum um þessi mál, bæði í ræðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, hjá framsögumanni nefndarálits 2. minni hluta, fulltrúa Framsóknarflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hér fyrr á fundinum, og nú hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að þeir viðra sjónarmið byggðakvótans. Ég skil það þannig að þeir telji það ekki vera bestu leiðina til að styrkja frekar atvinnulíf í hinum dreifðu byggðum að senda þangað auknar veiðiheimildir, heldur sé þar nú krafa til fjölþættara atvinnulífs og fjölþættari uppbyggingar en þess eins að fá veiðiheimildir. Ef ég skil þingmennina rétt virðast þeir tala fyrir því að til greina gæti komið að breyta þessum veiðiheimildum, sem eru ætlaðar í byggðakvóta, í verðmæti, önnur verðmæti, og nýta þau verðmæti til fjárfestinga og uppbyggingar í byggðunum.

Nú þekkja þessir þingmenn miklu betur til mála í hinum dreifðu byggðum og sjávarútvegsins og atvinnulífsins þar en ég geri. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort ég hafi ekki skilið það rétt að það sé í raun ráðstöfunin í byggðakvóta sem sé eitt af því sem þingmaðurinn setur fyrir sig í þessu máli og þá með hvaða hætti öðrum hann sæi að nýta mætti þessi verðmæti til uppbyggingar út um landið frekar en að fara leið byggðakvótans sem ég er ekki svo dómbær á, eins og ég segi.