139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

889. mál
[00:38]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytingu á lögum sem flutt er af hv. efnahags- og skattanefnd allri. Að frumvarpi þessu standa auk mín þau hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Magnús Orri Schram, Tryggvi Þór Herbertsson, Pétur H. Blöndal, Huld Aðalbjarnardóttir og Lilja Mósesdóttir.

Frumvarpið þjónar því hlutverki að framlengja gildandi gjaldeyrishöft, sem renna að óbreyttu út í ágúst, til 30. september næstkomandi. Með því er þó ekki ætlunin að falla frá gjaldeyrishöftum þann dag heldur er hér aðeins verið að gefa svigrúm fyrir löggjafann til að ljúka umfjöllun um frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um gjaldeyrishöft, en í því er gert ráð fyrir að höftin verði hér við lýði til 31. desember 2015.

Það var niðurstaða úr samningum við þinglok að nauðsynlegt væri að nýta sumarið til að fara vel yfir þetta mál, kalla eftir óháðum lögfræði- og hagfræðiálitum, bæði um hvort frumvarpið eins og það er tryggi Seðlabanka Íslands nægilegt svigrúm til þess að setja fyrir leka á höftunum, þ.e. undanskot eða sniðgöngu við höftin, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt mikla áherslu á að Seðlabankinn þurfi að hafa mikið og gott svigrúm í því efni og það hefur bankinn haft. Þingið hefur treyst bankanum vel fyrir framkvæmd fram að þessu.

Um leið er mikilvægt að fara vel yfir þann trúverðugleika sem er um afnámið sjálft í þessari umgjörð og þau áhrif sem setning laganna mun hafa á væntingar á markaði og aðra slíka hluti. Til þess að tími vinnist til að sinna þessum verkum án þess að höftin falli úr gildi á meðan er nauðsynlegt að framlengja gildistöku þeirra til 30. september. Ég geri síðan ráð fyrir því að höftin verði framlengd varanlega með nýrri löggjöf í septembermánuði næstkomandi.