139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[00:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu og nefndaráliti sem ég boðaði við 2. umr. um þetta mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum, oft nefnt bandormur, á þingfundi fyrr í dag. Breytingartillagan lýtur að 9. gr. sem var í hinu upphaflega frumvarpi en varðar nú 7. og 8. gr., sömuleiðis hina 14. hvað varðar gildistöku. Þar var gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir bæru fyrst 50% af 3,5 milljarða hlutdeild fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða í kostnaði við sérstaka vaxtaniðurgreiðslu í tengslum við aðgerðir í skuldavanda heimilanna og síðar að þeir bæru 40%, þ.e. 1,4 milljarða kr., af þessum 3,5 milljörðum kr., en hér er lagt til að þessi ákvæði verði felld brott.

Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir beri þann kostnað sem um var samið með því að fjármagna hluta aðgerðanna eins og samkomulagið greinir, en fram kom á fundi efnahags- og skattanefndar á uppstigningardag sl. hjá Arnari Sigmundssyni, formanni Landssambands lífeyrissjóða, að sjóðirnir hafi gert ráð fyrir því að fjármagna 1,5 milljarða kr. af þessum kostnaði. Ágreiningur hefur hins vegar verið verulegur um það með hvaða hætti að því skyldi staðið og rík andstaða var af hálfu sjóðanna um að þeim væru með lögum gerðir skattar af eignum sínum sem eru lífeyrisréttindi sjóðfélaganna.

Um þá grundvallarbreytingu að skattleggja lífeyrissjóðina held ég að sé líka óhætt að segja að hafi verið efasemdir hjá ýmsum, bæði í stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni í þinginu. Þess er því freistað hér að gefa stjórnvöldum og lífeyrissjóðunum færi á því í sumar að ná samkomulagi um það með hvaða hætti sjóðirnir fjármagni sinn hlut í hinni sérstöku vaxtaniðurgreiðslu svo ekki þurfi að koma til einhliða aðgerða af hálfu löggjafans um skattlagningu. Takist ekki slíkt samkomulag verður auðvitað að taka málefnið aftur til umræðu í þinginu og hvernig best verður þá úr því leyst en ég bind vonir við að síðar í þessum mánuði, þegar farið verður yfir stöðuna á forsendum kjarasamninganna, nái aðilar saman um þetta atriði.

Ég þakka hv. nefndarmönnum efnahags- og skattanefndar fyrir samstarfið um þessar breytingar og samstarfið sem tekist hefur í þinginu um þinglokin.