139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vona að síðasta atkvæðagreiðslan sem var um breytingartillöguna sem var hér samþykkt með 48 samhljóða atkvæðum (Gripið fram í.) sé vísbending um það sem koma skal um fiskveiðistjórnarmál og þá vinnu sem fram undan er. Það var ánægjulegt að við gátum tekið á síðustu atkvæðagreiðslunni um breytingartillöguna á þann hátt. Verkefni okkar fram undan er að skapa eðlilega umgjörð, lagaramma, fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein þar sem eru skiptar skoðanir. Sitt sýnist hverjum og ólík hagsmunaöfl takast á, ólíkir útgerðarflokkar, m.a.s. vinnsluflokkar, vegna þess að við verðum að hafa í huga að afurð sjávarútvegsins er líka vara sem við þurfum að selja einhverjum og einhver þarf að kaupa. Ég á enga ósk heitari, virðulegi forseti, en þá að sú vinna sem fer í gang núna hjá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd leiði til þess að hér skapist sátt um þær breytingar sem koma meðal annars fram í endurskoðunarskýrslunni vegna þess að við nokkur mikilvæg grunnprinsipp eru allir sáttir (Forseti hringir.) og það er mikilvægt að hafa í huga.