139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

afsal þingmennsku.

[10:32]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Alþingi barst í morgun svohljóðandi bréf frá Þórunni Sveinbjarnardóttur, 7. þm. Suðvesturkjördæmis, þar sem hún segir af sér þingmennsku frá og með deginum í dag, 5. september 2011.

„Frú forseti.

Að vandlega íhuguðu máli hef ég ákveðið að segja af mér þingmennsku. Í umboði stuðningsfólks jafnaðarstefnunnar hef ég starfað í stjórnarandstöðu, í stjórnarliði, sem ráðherra og formaður þingflokks sl. 12 ár. Nú er komið að því fyrir mig að hafa vistaskipti og huga að nýjum viðfangsefnum. Á þessum tímamótum finn ég fyrir sterku þakklæti til góðs samferðafólks og félaga í Samfylkingunni frá stofnun hennar og til allra þeirra þingmanna og starfsfólks Alþingis sem ég hef verið samferða, jafnt á léttum tímum sem ógnvænlegum.

Ég votta stofnuninni Alþingi virðingu mína um leið og ég kveð. Hún hefur séð allt á sínum meira en þúsund árum og það er á ábyrgð hvers og eins Íslendings að vernda hana og styrkja.

Virðingarfyllst,

Þórunn Sveinbjarnardóttir,

formaður þingflokks Samfylkingarinnar.“

 

Við þingmennskuafsal Þórunnar Sveinbjarnardóttur tekur Lúðvík Geirsson sæti hennar á Alþingi og verður 11. þm. Suðvesturkjördæmis en Magnús Orri Schram verður 7. þm. kjördæmisins.

Lúðvík hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðinn velkominn til starfa á ný.

Við þingmennskuafsal Þórunnar Sveinbjarnardóttur vil ég fyrir hönd Alþingis færa henni alúðarþakkir fyrir störf hennar í þágu Alþingis á undangengum árum, sem alþingismaður, ráðherra og formaður þingflokks. Við kveðjum góðan samstarfsmann og ötulan þingmann með góðum óskum um gott gengi á nýjum vettvangi sem hún hefur kosið sér.

Persónulega vil ég færa Þórunni Sveinbjarnardóttur sérstakar kveðjur og þakkir fyrir náið og gott samstarf okkar á milli, ekki aðeins í þingflokki okkar síðustu 12 árin, heldur ekki síður fyrir einstæða samvinnu síðustu missiri þegar hún var formaður stærsta þingflokksins, stjórnarþingflokks sem forseti eðli málsins samkvæmt þarf að hafa við mikinn og traustan trúnað. Ég er henni jafnframt afar þakklát fyrir hlut hennar við þingskapabreytingarnar við lok sumarþingsins en hún var formaður þingskapanefndarinnar.

Þórunn Sveinbjarnardóttur er kvödd hér við þessi tímamót með árnaðaróskum okkar allra henni til handa.