139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

ályktanir VG í garð ráðherra Samfylkingarinnar.

[10:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að ég er að velta fyrir mér hvort það sé í rauninni starfhæf ríkisstjórn í þessu landi. Það hlýtur að sæta miklum tíðindum í stjórnmálum þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur upp á Alþingi og lýsir yfir — eða það er a.m.k. ekki hægt að skilja hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri grænna öðruvísi en svo að hann taki undir efni þessara tveggja yfirlýsinga, þar með yfirlýsingarinnar um að hæstv. utanríkisráðherra verði látinn sæta rannsókn á Alþingi fyrir embættisfærslur sínar.

Ég velti fyrir mér hvaða þýðingu slíkar yfirlýsingar hafi í stjórnmálum. Hvaða þýðingu mundi slíkt hafa í öðrum þjóðþingum en á Íslandi? Hvað ætli yrði sagt í breska þinginu ef breski fjármálaráðherrann lýsti því yfir að hefja ætti rannsókn á embættisfærslum breska utanríkisráðherrans? Annar hvor ráðherrann mundi ekki (Forseti hringir.) endast daginn í starfi, mundi ég ætla, þannig að ég get ekki litið öðruvísi á en svo að hæstv. fjármálaráðherra og flokkur hans hafi með þessum yfirlýsingum sínum lýst yfir vantrausti á þessa tvo hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar.