139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara. Eins og fram kom í máli þeirra nefndarmanna í menntamálanefnd sem talað hafa á undan mér er hér um tæknilegt atriði að ræða, sanngirnismál um að þeir sem þegar hafa hafið nám en eiga af einhverjum orsökum lítið eftir fái tækifæri til þess að klára og rétt til leyfisbréfs til kennslu. Að sjálfsögðu styð ég það.

Áður en málið verður klárað höfum við hugsað okkur að skoða frá og með hvaða tíma þetta eigi að gilda. Fyrir fram er ég á þeirri skoðun að frekar eigi að horfa til júlí 2012 til að fleiri fái tækifæri til að klára sitt nám og nota þann glugga sem hér er verið að opna. En að sjálfsögðu verður horft á þetta allt með opnum huga í nefndinni.

Frú forseti. Það eru spennandi tímar í menntamálum í dag og gaman að fá að taka þátt í að fylgjast með hvernig kennaranámið mun mótast í kjölfar lagabreytinganna sem þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, á heiður skilið fyrir að koma á. Það verður mjög skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þetta allt mun þróast. Ég tel að stjórnmálamenn, bæði þeir sem starfa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi, eigi að hafa skoðun á því með hvaða hætti menntun barna okkar fer fram og ekki síst með hvaða hætti kennaramenntunin er uppbyggð. Þess vegna verður mjög spennandi að fá að taka þátt í því ef af verður og fá smáinnsýn í það hvernig þessar breytingar skila sér inn í kennaranámið.

Við eigum að fjalla um það hvað við viljum sjá og við þurfum að fjalla um atriði eins og t.d. hvers vegna strákar heltast frekar úr lestinni í framhaldsskólum en stúlkur. Við höfum aðallega verið að fjalla um hvernig námið er uppbyggt í framhaldsskólunum en getur verið að það sé eitthvað innbyggt í grunnskólann og með hvaða hætti menn nálgast menntun þar sem leiðir til þess að strákar tolla ekki jafn vel í framhaldsskólunum og stúlkur? Þetta er eitt af þeim atriðum sem við eigum að horfa til. Við höfum rætt það nokkuð í þinginu undanfarin tvö ár og reynt að finna út hvernig eigi að nálgast þennan hóp betur. Ég held að eitt af atriðunum sem þurfi að skoða sé hvað hugtakið menntun merkir í hugum barnanna okkar. Hvað vekur áhuga? Með hvaða hætti er hægt að vekja áhuga á frekari menntun? Það er ekkert dýrmætara en að eiga vel menntaða einstaklinga. Með því að mennta börnin vel og með því að koma sem flestum í gegnum nám aukum við hagvöxt, það er bara þannig. Þetta tikkar allt saman. Því er hægt að segja að menntamálin séu grunnurinn að öflugu samfélagi og það má í rauninni segja að það hvernig byggja skuli upp kennaramenntunina, þ.e. menntun þeirra sem ætla síðan að koma börnum okkar áfram í námi, sé eitt það mikilvægasta sem við getum tekið þátt í að ræða. Þetta er sú nálgun sem ég held að við eigum að hafa á þessu máli.

Af því að fyrri ræðumaður, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, minntist í örstuttu máli á að það þyrfti jafnframt að skoða kjaramál kennara þá er ég persónulega á þeirri skoðun að taka þurfi upp kjarasamninga kennara frá grunni. Kjarasamningar hér á landi eru flestallir byggðir upp á sama hátt að undanskildum kennarasamningunum, sem eru afskaplega furðulegir að mínu mati. Ég tel að gera þurfi átak í að breyta uppbyggingunni á þeim og sé orðið tímabært að skoða þá frá grunni þannig að þeir séu nær nútímanum en raun ber vitni.

Ég hef reynslu af því að starfa í sveitarstjórnum og fara með mannaforráð og reynslu af því að ræða við kennara um kjör þeirra. Þetta er allt afskaplega fast í vöfum og uppbyggt með allt öðrum hætti en hjá öðrum stéttum og ég sé einfaldlega ekki rök fyrir því að svo sé. Ég tel að menn eigi að horfa meira í frelsisátt og hafa þetta kerfi allt saman liðugra og opnara. Ég tel að full ástæða sé til að fara yfir þessi mál í samhengi við breytingu á uppbyggingu kennaranámsins og menn eigi að taka sér góðan tíma í það í stað þess að reyna að leysa málið korteri áður en að samningar eru lausir. Þetta verður ekki leyst á þann hátt heldur þarf að gefa sér góðan tíma í að fara yfir þetta og hafa góðan fyrirvara.

Frú forseti. Ég hlakka til að taka þátt í vinnu nefndarinnar og vonast til að hún verði vönduð þótt við höfum kannski ekki mikinn tíma en þetta er tiltölulega einfalt frumvarp og sanngirnismál að það komist í gegn. Eina óvissuatriðið er hvaða tímaviðmið við ætlum að hafa í þessu og eins og ég sagði tel ég rétt að skoða vel hvort það eigi ekki að vera júlí frekar en janúar til að fleiri komist að.