139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:15]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp til þess að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar um nauðsyn þess að beita skattkerfinu til að ýta undir útbreiðslu nýrrar tækni. Ástæðan er sú að hröð útbreiðsla nýrrar tækni gefur okkur samkeppnisforskot. Það samkeppnisforskot skapast af því að nýja tæknin hraðar boðskiptum á milli einstaklinga og eykur þar með framleiðni. Nýja tæknin örvar nýsköpun í hugbúnaðargerð og getur bætt verkferla og ekki síst aukið framboð á vöru og þjónustu á íslensku, eins og ég geri mér vonir um að samþykkt þessa frumvarps leiði til.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skattkerfinu er beitt til þess að örva útbreiðslu nýrrar tækni. Í byrjun 9. áratugarins beitti þáverandi fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, sér fyrir afnámi aðflutningsgjalda á tölvum sem þá voru að ryðja sér til rúms hér á landi eins og annars staðar. Ég held að flestir sérfræðingar séu sammála um að afnám aðflutningsgjalda á tölvum hafi leitt til mun hraðari og víðtækari útbreiðslu tölvutækninnar hér á landi en almennt gerðist annars staðar. Það ýtti ekki bara undir notkun tölvutækninnar heldur örvaði þróun hugbúnaðar hér á landi.

Lækkun virðisaukaskatts á rafrænum bókum og tónlist úr 25,5% í 7% eða í það virðisaukaskattsþrep sem prentaðar bækur eru nú þegar í, á sama tíma og við erum að skylda dreifingaraðila eða söluaðila rafrænna bóka og tónlistar til að skila inn virðisaukaskattinum, ætti að vera þessari nýju tækni til framþróunar. Ég vil geta þess að ég fagna því sérstaklega að nú á að skylda dreifingaraðilana en ekki kaupendur eða neytendur til að skila inn virðisaukaskattinum. Ég tel að margir neytendur hafi ómeðvitað stundað skattsvik vegna þess að þeir vissu ekki að þeim bæri að skila inn 25,5% virðisaukaskatti þegar þeir keyptu sér rafbækur.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræðuna um hvort rétt sé að skattleggja sig út úr kreppu. Ég tek undir orð hv. þm. Helga Hjörvars um að við séum í raun og veru búin að skattleggja okkur út úr kreppunni. Ég sé fram á að við getum núna vonandi hafið skattalækkunarferli og frumvarpið sem hér liggur fyrir er kannski eitt hænuskref í þá átt.

Ég vil jafnframt skora á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að kynna sér umræðu hagfræðinga um skattalækkanir á krepputímum. Rannsóknir þeirra sýna að skattstofnarnir eru einfaldlega mjög veikir eftir bankahrun. Skattalækkanir örva eða hækka skatttekjur ríkissjóðs mun minna við slíkar aðstæður heldur en ef hagkerfið væri í eðlilegu ástandi. Lækkun skatta kemur því ekki í veg fyrir mjög harðan niðurskurð á velferðarþjónustu. Auk þess sýna þessar rannsóknir að ríkisútgjöldin, þ.e. kaup ríkisins á vörum og þjónustu, örva atvinnustarfsemina mun meira en skattalækkanir í fjármálakreppu. Það á sérstaklega við þegar vextir eru mjög lágir því þá ýtir ríkið ekki út einkaaðilum vegna þess að ríkið fjármagnar kaup á vörum og þjónustu í kreppu yfirleitt með lántöku eða útgáfu ríkisskuldabréfa. Það hækkar vexti og dregur úr fjárfestingum einkaaðila. Með öðrum orðum þá gilda ekki sömu lögmál um örvun á skatttekjum ríkissjóðs í fjármálakreppu.

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki hafa tekið nógu mikið inn í þessa umræðu um skattpíningarstefnu núverandi ríkisstjórnar þá aðstöðu sem við höfum búið við á undanförnum árum.

Hvað varðar frumvarpið sem við fjöllum um núna er það vissulega jákvætt skref en kannski allt of stutt. Ég hefði auðvitað viljað standa að lækkun 25,5% virðisaukaskattsþrepsins eins og aðrir þingmenn sem tekið hafa til máls í þessari umræðu. Því miður er ekki mikill vilji til þess að finna leiðir til að fjármagna slíka lækkun. Ég hef, virðulegi forseti, m.a. lagt til að við færum í að leita að nýjum skattstofnum og skattlegðum t.d. aflandskrónur og tekjuauka útflutningsfyrirtækja sem er gífurlegur vegna þess að gengi krónunnar er að mati flestra hagfræðinga of lágt skráð. Það væri hægt að nota hluta af tekjum ríkissjóðs af nýjum skattstofnum til að fjármagna lækkun virðisaukaskattsins og tryggja þannig bætt kjör almennings í landinu.