139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, ég hefði ekkert á móti því, það má ekki misskilja orð mín um þetta. Það þarf auðvitað að kanna þetta og vita hvað er kennsluforrit og hvað er ekki kennsluforrit. Það er hin sífellda glíma (Gripið fram í: Það er rafbók.) embættismanna í skattkerfinu að flokka hlutina, þeir hafa ekki flokkunarkerfi Linnés en verða að búa sér til sitt eigið flokkunarkerfi og í tollinum líka. Það verður oft nokkuð hjákátlegt en verður þó ekki fram hjá því komist ef þetta á að ganga þokkalega.

Ég tek bara undir þetta. Það sem ég meinti kannski með orðum mínum áðan var að ég held að við eigum að forðast að gera nokkuð sem getur tafið framgang þessa máls og nota tímann í næsta áfanga þegar septemberþinginu er lokið til að skoða þetta betur.

Um nafn fjármálaráðherrans í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hinni síðustu eða tveimur síðustu, frá 1988–1991, ja, getur ekki fólk sagt sér það sjálft hver þá var fjármálaráðherra? Það var ekki þess vegna sem ég var að rifja upp veru mína í ráðuneytinu heldur vegna þess að þau tvö ár voru mér mikill skóli, bæði um almenn stjórnmál og ekki síður um verksvið fjármálaráðuneytisins, sérstaklega skattamál. En ég var í upphafi ráðinn inn sem eins konar umönnunarmaður virðisaukaskattskerfisins sem þá var verið að innleiða og átti sum sé þátt í því, a.m.k. kynningu þess, sem var mér mikilvægt — ég hafði ekki komið mjög nálægt því áður nema með því að borga alls kyns skatta sem á voru settir.