139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp sem flutt er af hæstv. umhverfisráðherra og fjallar um að sameina tvær nefndir í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Ég vil byrja á því að fjalla aðeins um þá breytingu og hvernig við stígum það skref að innleiða eða fullgilda svokallaðan Árósasamning. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvað kallar á að gera það með þeim hætti sem hér er gert. Hv. umhverfisnefnd og meiri hluti hennar, þeir hv. þingmenn sem sitja þar, hefði getað skoðað þetta mál betur og haft, í þeim gögnum sem fyrir liggja, skýringar á því hvers vegna önnur lönd, t.d. Norðurlöndin sem ríkisstjórnarflokkarnir bera sig saman við þegar þeim hentar, hafa ekki stigið það skref sem hér er lagt til að verði gert við fullgildingu þessa samnings. Kannski það sé vegna þess að viðkomandi ríki hafa haft áhyggjur af því sama og margir hv. þingmenn hafa nefnt hér, þ.e. að það gæti orðið til þess að drekkja því sviði stjórnsýslunnar sem á að fjalla um þær kærur sem berast alls staðar að. Það hefur þá verið opnað fyrir það að einstaklingur, hvar sem hann býr, geti kært framkvæmdir sem á að fara í hér á landi, hvort sem hann hefur hagsmuna að gæta eður ei.

Ég hræðist þetta mjög. Við þekkjum líka hvernig mörg þessara samtaka vinna. Þau munu þá senda jafnvel þúsundir kæra ef þau vildu reyna að stoppa eitthvert verkefni og drekkja stjórnsýslunni og tefja framkvæmdir jafnvel um mörg ár.

Það er líka vitað að það er einungis eitt land, Portúgal, sem hefur stigið skref í þessa sömu átt, kannski ekki alveg eins langt og lagt er til hér. Einungis eitt land sem hefur farið þessa leið, einungis eitt. Það er sagt að Hollendingar hafi líka stigið þetta skref en síðan aftur til baka eftir að reynslan leiddi í ljós að kærum fjölgaði mikið.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvað býr að baki þeim hugmyndum að fara þessa leið.

Í minnihlutaáliti, sem hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Birgir Ármannsson skrifa undir, er línurit sem athyglisvert er að skoða. Þar kemur fram hvað gerist frá því menn fá hugmynd og þar til þeir geta farið að framkvæma. Ég verð að viðurkenna að það er sko enginn smáferill; og er sá ferill nógu flókinn fyrir, eins og við höfum margoft rekið okkur á á undanförnum árum. Ég skil ekki hvers vegna þarf að gera þetta flóknara.

Hvað kallar á þessar breytingar? Í nefndaráliti meiri hlutans kemur svarið. Svarið er mjög stutt og snubbótt. Þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það er pólitísk ákvörðun meiri hluta umhverfisnefndar að fara þessa leið þó að sterk rök bendi til þess að það sé ekki skynsamlegt. Ég hefði talið mjög mikilvægt að meiri hluti hv. umhverfisnefndar hefði fjallað um reynslu annarra landa í nefndaráliti sínu, hefði lagt mat á afleiðingar af því að gera þetta svona, fyrir umhverfið, almenning, atvinnulífið og stjórnsýsluna, og líka lagt mat á kostnaðinn. Mér finnst vanta þá umfjöllun inn í þetta mál hér. Skýringin er þessi: Þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun og skal einfaldlega gert með þessum hætti.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög oft bruðlað með peninga. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu er talað um að þetta geti verið kostnaður upp á um 12–13 millj. kr. á ári. En gerðir eru mjög stórir fyrirvarar við það, vegna þess að menn skera — þar segir að erfitt sé að áætla með vissu hversu mikið kærum muni fjölga, en umhverfisráðuneytið áætli að það muni leiða til að minnsta kosti 30% fjölgunar mála.

Þegar menn komast að þeirri niðurstöðu að þetta gæti orðið 20 millj. kr. kostnaðaraukning — en það á að spara 7–8 millj. kr. á móti, þ.e. þegar kostnaður verður við úrskurð um umhverfismál og hollustuhætti, þannig að niðurstaðan verður einhvers staðar í kringum 12–13 milljónir. En það eru samt mjög stífir fyrirvarar um þetta, þannig að þetta geti gengið.

Þetta er allt í stíl við þá frasaumræðu sem oft er hér. Ég verð að viðurkenna að ég legg traust á hæstv. forseta, að hann komi vitinu fyrir samstarfsmenn sína og menn stígi skrefið til baka eins og lagt er til í breytingartillögu þriggja hv. þingmanna, þeirra Kristjáns Þórs Júlíussonar, Birgis Ármannssonar og Vigdísar Hauksdóttur. Í þeirri breytingartillögu er öllum hleypt að, hvort heldur sem það eru umhverfisverndarsamtök eða útivistarsamtök. Slík samtök eru oft að vinna gott verk, og eina skilyrðið sem er sett er að þau hafi 30 meðlimi. Það er eina krafan. Ég tel það alveg nægjanlegt fyrir okkur hér, algjörlega.

Menn tala um 10, 20, 30 milljónir, að þetta skipti ekki neinu máli. En mér finnst forgangsröðunin vera alröng. Hér er verið að búa til, eins og stundum er sagt, og ég hef nú stundum sagt sjálfur, svona pappírsstörf. Til hvers? Til að taka við kærum frá útlendingum sem hafa engra hagsmuna að gæta og enga aðkomu að málum á nokkurn einasta hátt, hræra í pappír til þess að skapa störf við það. Ég spyr: Hefði ekki verið eðlilegra að halda þá í störfin á heilbrigðisstofnunum á landinu? Hafa frekar hjúkrunarfræðingana, sjúkraliðana, læknana? Nei, þetta er forgangsröðunin. Þetta er pólitísk ákvörðun. Þetta er í stíl við önnur vinnubrögð hjá stjórnarmeirihlutanum, alltaf einhverjir frasar og eitthvert innihaldslaust snakk.

Ég nefni sem dæmi kynjaða fjárlagagerð og svoleiðis vitleysu, sem kostar tugi milljóna þó að það virðist ekki kosta nokkurn skapaðan hlut neins staðar. Þá fara menn í það, og hver er árangurinn? Jú, á sama tíma og verið er að setja tugi milljóna í slíkt gæluverkefni, til þess að friða einhverja öfgahópa, er verið að reka fólkið sem vinnur á spítölunum og sjúkrahúsunum út, láta það ganga um atvinnulaust. Það er forgangsröðunin. Það er sú pólitíska ákvörðun sem verið er að taka hér.

Mér er líka minnisstætt þegar við fjölluðum hér um — og hefur verið í fréttunum undanfarnar vikur og ég skil nú ekki af hverju ekki var fjallað um það miklu fyrr — sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Ég hélt þá um það margar ræður að verið væri að bruðla með peninga, tugi milljóna, til þess að steypa saman tveimur stofnunum. Það voru engin gögn lögð á borðið. Samt voru hv. þingmenn tilbúnir að taka afstöðu og greiða því atkvæði að sameina bæri þessar stofnanir vegna þess að menn sæju einhverja áratugi fram í tímann, að einhver sparnaður gæti orðið. En það var ekki sýnt fram á það með gögnum, nei, engin gögn lágu fyrir um það.

Hver er svo niðurstaðan og hver ætli verði lendingin í fjárlögunum í haust? Ef þessar tvær ágætu stofnanir fá ekki aukið framlag til að mæta þessari vitleysu, þessu bruðli þarf að fækka fólki. Það verður að segja upp fólki vegna þess að 70–80% af kostnaði við rekstur slíkra stofnana eru laun. Það er árangurinn.

Svo kom skýringin, sem maður var nú svo grænn að fatta ekki, og svo kom yfirlýsingin frá ríkisstjórninni: Við höfum fækkað stofnunum svo og svo mikið. En ekki er spáð í hvaða afleiðingar það hefur — hvort einhver hagræðing sé af því eða sparnaður. Nei, það er bara talað. Það er það sem liggur fyrir.

Það er með eindæmum hvernig oft er bruðlað með fjármuni eins og er verið að gera í þessu tilfelli. Hér á að bruðla með peninga og skapa einhver störf í nefndum sem eiga að taka við kærum frá útlendingum, sem varðar ekkert um okkar innanríkismál, og hræra í þeim. Það er svo sérkapítuli að úrskurðarnefndir, margar hverjar, hafa verið mörgum vikum, eða mánuðum, á eftir með úrskurði sína vegna álags, vegna fjárskorts, en samt ætla menn að fara að gera þetta. Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við það, af mörgum aðilum sem hafa komið fyrir fastanefndir þingsins, að þessir hlutir hægja á atvinnuuppbyggingu í landinu. En það skiptir kannski engu máli meðan þessi ríkisstjórn situr, það verða hvort sem er engar framkvæmdir á meðan hún er við völd. En það er algjörlega óskiljanlegt af hverju menn fara þessa leið.

Ég segi enn og aftur að menn eru að bruðla með fullt af peningum þar sem hægt væri að spara helling, eyða í alls konar vitleysu, einhver pólitísk gæluverkefni til að friða öfgahópa í hverju horni. Enda er staða ríkisstjórnarinnar slík að enginn má anda eða blása án þess að hlaupið sé upp til handa og fóta þar sem meiri hlutinn hangir á bláþræði. Hver einasti stjórnarþingmaður hefur neitunarvald og getur gert alls konar kröfur, hvort heldur sem þær eru raunhæfar eða óraunhæfar.

Síðan leggja hv. stjórnarþingmenn tillögur af þessu tagi fram, bruðla með peninga á hinum og þessum stöðum. En ég ætla að upplýsa virðulegan forseta um það að margir íbúar á landsbyggðinni eru ekki búnir að gleyma þeirri aðför sem var gerð að þeim síðastliðið haust þegar menn réðust á hverja heilbrigðisstofnunina á fætur annarri, skáru langt inn fyrir bein svo að olli ólgu og haldnir voru um það margir fundir. Sem betur fer var það slagkraftur íbúanna sem sneri dæminu við, þessari vitlausu herferð ríkisstjórnarflokkanna við að leggja marga staði á landsbyggðinni nánast niður. Á sama tíma er verið að bruðla með peninga í þessa átt hér.

Ráðherrann í mínu kjördæmi, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði engar athugasemdir, þegar frumvarpið var lagt fram og kynnt í ríkisstjórnarflokkunum og í ríkisstjórninni, við það að heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki væri skorin niður um tugi prósenta, eða á Vestfjörðum eða hvar sem er. Engar athugasemdir, engar bókanir. Svo koma skýringarnar: Ja, þið vitið hvaða hug ég ber til ykkar. En ekki voru gerðar athugasemdir við það á fyrri stigum málsins, aldeilis ekki. Þetta er enn og aftur með sama hætti, það er verið að bruðla með peninga í pappírsvinnu í staðinn fyrir að snúa sér að því að byggja upp atvinnu fyrir fólkið í landinu þannig að það geti séð sér farborða. Við þurfum ekki á því að halda núna að opna á kærur frá útlendingum hvað varðar þau verkefni sem tilgreind eru í 4. gr. Þetta er algjörlega fáránlegt.

Sú breytingartillaga sem ég vitnaði í hér áðan, sem flutt er af minni hlutanum í hv. umhverfisnefnd, dugar svo sannarlega til.

Ég vil að lokum benda á athugasemdir frá sveitarstjórnarmönnum sem mér hafa borist. Þar kemur í ljós að menn eru mjög hræddir við hvaða afleiðingar þetta getur haft. Menn telja allar líkur á því að frumvörpin auki enn á vandann nema jafnframt verði gripið til mótvægisaðgerða. Ákvæði um almenna málskotsheimild, í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sé ekki fyllilega skýrt og virðist meðal annars óljóst hvort sú regla nær til ákvarðana um útgáfu starfsleyfa fyrir starfsemi sem er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Hér kemur strax spurning sem er enn ósvarað og menn velta fyrir sér: Hvað mun þetta þýða? Menn eru með efasemdir um þetta, telja að þetta gæti gengið lengra en menn leggja skilning í hér. Menn benda líka á að almennri málskotsheimild fylgi ýmsir ókostir, meðal annars vegna ríkrar leiðbeiningarskyldu sem hvílir á stjórnvöldum, þar á meðal úrskurðarnefndum, sem getur reynst afar íþyngjandi þegar flókin mál eru annars vegar. Forsenda þess að unnt verði að starfa eftir þessum ákvæðum, án þess að málsvörnin dragist úr hófi, sé sú að stöðugildi viðkomandi úrskurðarnefndar verði mun fleiri en sem nemur fjölda starfsmanna sem nú sinna þeim verkefnum sem ætlunin er að fela nefndinni.

Enn og aftur er varað við því sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þ.e. að þetta muni þýða aukin útgjöld, en samt með þeim fyrirvara að það muni þó hugsanlega verða hærri upphæð en þar er gert ráð fyrir. Þetta er forgangsröðunin. Það er pólitísk ákvörðun að fara þessa leið.

Ég spyr, ég hef ekki heyrt nein rök enn þá: Hvers vegna dugar ekki það ferli sem er í dag? Mér hefur sýnst það mjög flókið og nægjanlega flókið. Við þekkjum þá umræðu sem varð og þær staðreyndir sem blöstu við þegar menn ákváðu að setja bæði virkjanaleyfið, framkvæmdaleyfið og nýtingarleyfið í Þingeyjarsýslunum í sameiginlegt umhverfismat. Hvaða áhrif hafði það? Hæstv. ráðherrar sögðu: Þetta mun einungis tefja verkið um tvær vikur eða þrjár, eða einhverja daga. Hver varð reyndin? Reyndin varð allt önnur.

Nei, það á ekki að læra af þessum mistökum. Það á aldeilis ekki að gera það. Hér á að hlaupa eftir kenjum einhverra fámennra öfgahópa. Ég ítreka það enn og aftur að fullgilding Árósasamningsins, til að mynda á öllum Norðurlöndunum, er ekki með þeim hætti sem hér er lagt til. En við erum svo klár og stór — og reyndar fá, eins og kemur fram í skýringum sem ég skil ekki — að óhætt er fyrir okkur að stíga þetta skref. Þetta minnir mann enn og aftur á það þegar við vorum í þessari útrás — mér fannst síðasti ræðumaður orða það vel, þetta er sennilega stærsta útrás sem farið hefur verið í frá upphafi, að gefa öllum færi á að kæra allar þær framkvæmdir sem á að fara í. Þetta mun einungis tefja fyrir framkvæmdum í staðinn fyrir að liðka fyrir þeim; framkvæmdum sem við þurfum að fara í til að skapa atvinnu.

Það væri eðlilegt að samþykkja frekar breytingartillögu frá minni hluta umhverfisnefndar sem snýr að því að gera öllum hér innan lands frjálst að kæra. Með því er gengið lengra en er í dag, menn þurfa ekki að hafa bein áhrif að því leytinu til að umhverfissamtök eða útivistarsamtök geta kært ákvörðun og tekið þátt í ferlinu. Það tel ég vel duga fyrir alla þá sem láta sig umhverfi sitt varða. Það er nefnilega oft þannig, virðulegi forseti, að þeir sem tala hæst um hlutina hugsa minnst um þá. Það er staðreynd að mörgum sveitarfélögum sem tekið hafa forustu í umhverfismálum hér á landi er stýrt af sjálfstæðismönnum og meiri hluta þeirra. Það eru verkin sem tala en ekki eitthvert orðagjálfur eins og hér er.