139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það kom fram beiðni um að haldnir yrðu opnir fundir í utanríkismálanefnd. Formaður utanríkismálanefndar sem núna er fjarstaddur gekk strax í það mál, gerði samkomulag um hvernig þessu yrði háttað og náði um það samkomulagi við flutningsmenn tillögunnar. Það eru engin undirmál þar frekar en annars staðar í samningaviðræðunum við ESB. Ég held að óhætt sé að segja að ekki er hægt að gera þessar samningaviðræður öllu ljósari en gert er í dag. (Gripið fram í: Opnir …) Samningamennirnir hafa komið fyrir hvern einasta rýnifund sem þeir hafa farið á og gert utanríkismálanefnd grein fyrir þeim.

Hitt er annað mál að það er svolítið misjafnlega mætt á fundi utanríkismálanefndar (Gripið fram í: Nú?) þannig að kannski vita ekki allir hvað þar fer fram. Þetta hefur verið gert, öll rýniskjölin eru opinber um leið og þau hafa verið lögð fram á fundum hjá ESB þannig að það er ekki hægt að gera þetta skýrara og augljósara.

Við lásum í fréttum í gær að skýrsla hefði komið frá ESB um stöðuna í landbúnaðarmálum. Utanríkisráðherra hafði samband við mig og bað um að fá að mæta á fund nefndarinnar til að geta skýrt frá þessu. Það var mitt fyrsta verk í morgun að gera fundarmönnum í utanríkismálanefnd viðvart um að fundur yrði haldinn og hann hefur verið boðaður kl. 13 í dag. Þar verður gerð grein fyrir þessu eins og öllum atriðum í samningaviðræðunum. Það er alveg sama hvað Ásmundur Einar Daðason segir það oft (ÁsmD: Verður fundurinn opinn?) í ræðustól — nei, hann verður ekki opinn enda stóð það ekki til. Það er alveg sama hvað hann segir oft að það hvíli leynd yfir þessu. Það er eitt orð yfir þær staðhæfingar og það er (Forseti hringir.) að þær eru ósannar.