139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir segir, þetta er til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd og hefur verið það á mörgum síðustu vikum og mánuðum. Það hefur verið farið í þaula yfir þetta mál og í mjög góðri samvinnu við samtök sveitarfélaga og reyndar fleiri aðila.

Ég tel að þetta sé ekki krafa AGS, ég held að þetta sé einfaldlega liður í því að laga fjármál sveitarfélaganna að því sem best á að gerast í heimi hér og er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig þeim verður best fyrir komið. Í þessari lagasetningu er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin hafi þriggja mánaða tíma til að koma með rökstudda greinargerð um það hvernig þau geti staðið við skuldbindingar sínar og að þau hafi til þess sex ára aðlögunartíma. Mér finnst þetta fremur rúmur tími. Aðalatriðið hlýtur að vera að sveitarfélögin geti sýnt fram á mjög raunsanna mynd af fjármálum sínum og komist klakklaust út úr þeim, eins og hér kemur fram, á sex ára tímabili. Við verðum að gera þá kröfu til sveitarfélaga að þau geti sýnt íbúum sínum fram á raunhæfar og góðar fjárhagsáætlanir og við getum ekki veitt nokkurn afslátt þar á. Ég tel að liður í því að efla fjárlagagerð sveitarfélaga sé að efla þau að stærð. Ég mun því flytja breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem kveðið verður á um lágmarksfjölda í sveitarfélögum á Íslandi, miðað við 1.500 manns, og tel það lið í því að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi og fjárlagagerð þeirra sveitarfélaga sem hér um ræðir. Það er gríðarlega mikið atriði fyrir íbúa hvers sveitarfélags að þau ráði við fjármál sín og þessar breytingar í stjórnsýslulögum (Forseti hringir.) eru til þess gerðar.