139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér í umræðuna um hugsanleg kaup kínverska auðkýfingsins Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum. Ég tel afar brýnt að horft verði til þessa kosts með opnum huga og að þess verði leitað með öllum leiðum að leiða saman þennan ágæta fjárfesti og stjórnvöld bæði syðra og í Norðurþingi til að fá úr því skorið hvort þessi möguleiki stenst almennar reglur og löggjöf hér á landi og þær væntingar sem heimamenn gera til þessa svæðis.

Það er afskaplega brýnt að Íslendingar horfi til aukinnar fjölbreytni í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi. Einsleitni í atvinnulífi er böl mjög víða um land þar sem karlastörf eru ríkjandi í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri greinum, svo sem þeim er tengjast áliðnaði. Þess vegna er það ákveðið afturhald að hafna hugmyndum sem þessum sem einmitt leiða til frekari fjölbreytni í atvinnulífi. Þá erum við einnig að horfa til þess að einn framsæknasti atvinnuvegur landsmanna, ferðaþjónustan, þarf einmitt á því að halda að hún dreifist betur yfir landið og betur yfir árið. Hugmyndir sem lúta að uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum eru sniðnar að því sóknarfæri sem helst og mest blasir við ferðaþjónustu hér á landi.

Þess vegna er afar brýnt að skella ekki skollaeyrunum við þessum hugmyndum heldur opna landið fyrir erlendum fjárfestingum svo fremi þær lúti að almennum, góðum reglum sem taka á þeim þáttum er lúta að erlendri fjárfestingu. Við verðum vitaskuld að svara mörgum spurningum er lúta að því hversu stóran part útlendingar eiga að kaupa af Íslandi. Hér er um að ræða 0,3% af landinu. Við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda og ef hún stenst íslenskar kröfur eigum við ekki að hafna henni. (Forseti hringir.) Slíkt afturhald er ekki í boði. (LMós: Innrásarvíkingar.)