139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga hefur á síðustu missirum og árum eytt töluverðum tíma í að ræða hinar og þessar leiðir sem kenndar hafa verið við önnur lönd. Mikil og heit umræða var á sínum tíma um sænsku leiðina. Nýverið var fjallað um hina svokölluðu austurrísku leið og hún lögfest í íslenskum refsirétti. Hér er til umfjöllunar enn ein leiðin sem merkja má ríki sem er sem betur fer liðið undir lok, en það er hin svokallaða austur-þýska leið.

Ástæðan er sú að með þessu frumvarpi ætlar ríkisstjórnin að innleiða á Íslandi og lögfesta til 2015 gjaldeyrishöft sem ríkisstjórn austur-þýska alþýðulýðveldisins hefði verið fullsæmd af, kommúnistastjórnin þar í landi. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í gær eru þau gjaldeyrishöft sem lagt er til að verði lögfest þau hörðustu og stífustu sem sést hafa, a.m.k. í hinum vestræna heimi, síðan austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok.

Það er mjög hjákátlegt að fylgjast með umræðu stjórnarliða í stjórnmálum þessa dagana á Alþingi. Við ræddum fyrr í dag ýmis málefni undir liðnum Störf þingsins. Þá komu hér þingmenn Samfylkingarinnar eins og hvítskúraðir kórdrengir og lýstu háleitum áformum sínum og vilja til þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestum í tengslum við áhuga kínverskra kaupahéðna á því að fjárfesta í landsvæði á Grímsstöðum á Fjöllum. (Gripið fram í.) Lögðu þingmenn Samfylkingarinnar mikið upp úr því að landið yrði opnað fyrir erlendri fjárfestingu. (Gripið fram í.)

Núna, einum og hálfum tíma síðar, stöndum við hér og ræðum tillögur hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, um að leggja á gjaldeyrishöft, að lögfesta þau til ársins 2015. Það er nú allur viljinn sem ríkisstjórnin hefur til þess að opna landið, þ.e. að skella á gjaldeyrishöftum til ársins 2015. Ef „rekkord“ þessarar ríkisstjórnar, ef svo má segja, er skoðað er ég ekki sérstaklega bjartsýnn á það með óbreyttri ríkisstjórn og óbreyttri stjórnarstefnu að áformin um að aflétta gjaldeyrishöftunum um áramótin 2015/2016 haldi vegna þess að ef þessir stjórnarherrar verða áfram við völd er allt eins líklegt að gjaldeyrishöftin verði framlengd enn frekar.

Það er m.a. vegna þessa frumvarps sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur þann vafasama sess í íslenskum stjórnmálum að vera líklega versta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Hún leggur hér upp með gjaldeyrishöft sem allir sem máli skipta mæla gegn og alls staðar er varað við, í öllum kennslubókum á sviði hagfræðinnar.

Í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar, sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal leggja fram og hafa mælt fyrir, er vísað í litlu gulu hænu hagfræðinnar.

Það segir strax í upphafsorðunum, með leyfi forseta:

„Í inngangskafla kennslubóka um alþjóðaviðskipti er yfirleitt að finna almenn varnaðarorð um skaðsemi gjaldeyrishafta. Höftum er gjarnan komið á til að bregðast við ástandi sem vísir menn telja að geti leitt til ófarnaðar vegna gengisfalls gjaldmiðilsins. Nauðsynlegt sé að hefta frelsi borgaranna til að eiga viðskipti með gjaldmiðilinn. Innleiðing hafta ber með sér að erlendir gjaldmiðlar séu eftirsóknarverðari en sá innlendi að mati ríkisstjórnar og seðlabanka. Tiltrú á gjaldmiðilinn hverfur sem gerir alla hagstjórn erfiða.“

Með því að leggja fram slíkt frumvarp gefst ríkisstjórn Íslands upp gagnvart því verkefni sem henni var falið, að koma á eðlilegu markaðshagkerfi og hífa landið upp úr þeim ólgusjó sem hér hefur verið eftir hrun. Lögfesting gjaldeyrishafta til ársins 2015 felur í sér algjöra uppgjöf. Það er þannig séð fyrir ríkisstjórnina að hafa það á ferilsskrá sinni að hafa lagt slíkt til en það er langverst fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu, enda er það nú svo að þegar maður les þær umsagnir sem borist hafa þinginu mælir nánast enginn með því að sú leið sem frumvarpið mælir fyrir um verði farin. Mikil varnaðarorð eru höfð uppi, t.d. af hálfu Samtaka atvinnulífsins sem hafa hagsmuna að gæta í málinu eins og allir landsmenn. Varnaðarorð þeirra eru alvarleg og ber að taka þau til gagngerrar skoðunar. Mér sýnist þó að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi hafi ekki gert það.

Í umsögn Samtaka atvinnulífisins segir m.a., með leyfi forseta:

„Nútímaatvinnulíf verður að búa við frjálst fjármagnsflæði og óheftan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og geta sótt sér bæði lánsfé og eigið fé. Íslenskt atvinnulíf getur því ekki búið við gjaldeyrishöft til lengri tíma. Þau valda efnahagslífinu skaða; fjármagnskostnaður þjóðarinnar hækkar, þau draga úr tiltrú á hagkerfið og takmarka aðgang landsins að fjármagni. Áætlun um gjaldeyrishöft í fimm ár er allt of metnaðarlítil og seinkar lífskjarabata alls almennings í landinu. Áætlunina skortir að auki skýr markmið sem getur reynst stjórnvöldum skjól til að fresta nauðsynlegum ákvörðunum er lúta að afnámi haftanna. […] Eitt af lykilatriðum til að efla trú á landinu og efla fjárfestingar er að höftin hverfi og að íslenskur fjármagnsmarkaður tengist útlöndum á eðlilegan hátt. Metnaðarfull áætlun um afnám gjaldeyrishafta væri yfirlýsing um að stjórnvöld hefðu trú á hagkerfinu og íslensku krónunni.“

Framlagning þessa frumvarps er hins vegar skýr yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar um að hún hefur hvorki trú á hagkerfinu né íslensku krónunni og þaðan af síður sinni eigin efnahagsstjórn.

Þá segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

„Gjaldeyrishöftin fela í sér að fyrirtæki hér á landi geta ekki átt samstarf við erlend fyrirtæki á jafnréttisgrundvelli. Atvinnulífið getur ekki fjárfest erlendis og höftin stöðva framþróun og nýsköpun í fyrirtækjunum. Höftin gera það erfiðara en ella að fá erlent fjármagn til fjárfestinga inn í landið.“

Að sjálfsögðu mæla Samtök atvinnulífsins gegn því að frumvarpið verði samþykkt. En þeir eru ekki einir um það, Kauphöll Íslands tekur undir með Samtökum atvinnulífsins og leggur fram tillögur um aðferðafræði við afnám haftanna á sex til níu mánuðum í tölusettum liðum. Ég botna ekkert í því hvers vegna þær tillögur sem fram hafa komið frá Páli Harðarsyni og Magnúsi Kristni Ásgeirssyni, forstjóra og lögfræðingi Kauphallarinnar, sem birtust í tímaritinu Vísbendingu árið 2011 hafa ekki verið teknar til gagngerrar skoðunar innan ríkisstjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin veit greinilega ekkert hvert hún á að fara í tengslum við afnám gjaldeyrishafta en hún hefur ekki einu sinni burði í sér til að leita til þeirra manna sem sérþekkingu hafa á þessu sviði og hafa lagt fram „konkret“ tillögur um hvernig við getum unnið okkur út úr þessum höftum. Það er miklu betra að mati ríkisstjórnarinnar að við hjökkum bara í sama farinu og höldum okkur við austur-þýsku leiðina, a.m.k. til ársins 2015.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Orri Hauksson, hitti naglann á höfuðið í umræðu um gjaldeyrishöftin á fundi í gær þar sem hann líkti gjaldeyrishöftunum við stríðið í Írak; það hefði svo sem verið auðvelt að fara í gjaldeyrishöftin eins og inn í Írak, en þegar menn voru komnir inn höfðu þeir enga áætlun um hvernig þeir ætluðu að koma sér út. Það sama á við um ríkisstjórnina í tengslum við gjaldeyrishöftin.

Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki langan tíma til stefnu en það eru fjölmargar aðrar umsagnir þar sem varað er við því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það felur svo sannarlega í sér einhver mestu hagstjórnarmistök sem gerð hafa verið á Íslandi verði frumvarpið að lögum. Þetta er líklega eitt versta ef ekki versta frumvarpið sem ég hef séð síðan ég steig hingað inn fæti og ég skora á alla þá þingmenn sem vilja færa (Forseti hringir.) Ísland aftur til nútímans að gera allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.