139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get tekið undir það. Það er hneisa fyrir Alþingi Íslendinga að setja lög sem síðar eru rekin til baka vegna þess að innan þessara laga gætir atriða og áhrifa sem ekki standast.

Við samþykktum það í vor að fram færi lagaleg úttekt á þessu frumvarpi og einstökum greinum þess. Í mínum huga þýddi það og þýðir að kanna hefði átt hvort þessi lög stæðust ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þær greinar sem oft hafa verið nefndar, þ.e. 2. gr., 3. gr., 41. gr. og 45 gr., í ljósi þess að við höfum undirgengist þann samning, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, og hvort þetta frumvarp standist þær greinar lagalega. Við báðum um það og samþykktum það á þinginu í vor. Við því hefur sá aðili sem beðinn var um það ekki orðið. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan og tek undir með þeim sem hafa nefnt það að það verði að kanna áður en við festum okkur í því að samþykkja eitthvað, eða meiri hluti löggjafarvaldsins festir sig í að samþykkja eitthvað sem okkur verður síðan gert að endurskoða fljótlega vegna þess að það stangast á við aðrar samþykktir sem við höfum gert.