139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa blandað hæstv. forseta inn í þessa umræðu þar sem hún er formaður viðskiptanefndar en málið er að sjálfsögðu í efnahags- og skattanefnd. Ég er hins vegar fullviss um það að ef frú forseti væri formaður þar hefði hún brugðist við og tekið málið af dagskrá (BVG: Að sjálfsögðu.) og gengið í verkið eins og henni er lagið.

Gjaldeyrishöftin voru sett 2008. Rétt. Þá stóð íslenska bankakerfið, íslenska þjóðin, frammi fyrir gífurlegum vanda. Þess vegna voru gjaldeyrishöftin sett á. Við þá lagasetningu var jafnframt talað um að taka þau af eins fljótt og auðið væri.

Núverandi ríkisstjórn hefur setið síðan í apríl 2009. (Gripið fram í: Febrúar.) Nei, það er ekki sama ríkisstjórnin og sat í febrúar vegna þess að þessi ríkisstjórn fékk umboð kjósenda. (Gripið fram í: Það var Framsóknarflokkurinn …) Ríkisstjórnin sem nú situr fékk umboð kjósenda í kosningunum í apríl 2009.

Ríkisstjórnin hefur samhliða þessu sagt, nú síðast á mánudaginn, að allt gangi hér betur en meira að segja var lagt upp með. Hér séu hlutir til náinnar framtíðar að verða mjög glæstir og góðir. (Gripið fram í.) Ýmis stór orð notuð. Samt er verið að festa í sessi reglugerð Seðlabanka Íslands og festa í lög gjaldeyrishöft til 2015 eða 2016. Það er ekkert hér sem sýnir manni fram á hvernig, hvort og þá hvar og hvenær menn ætla að afnema gjaldeyrishöftin.

Aflandskrónur sem verið er að tala um (Forseti hringir.) — og nú er tími minn liðinn, frú forseti, og ég virði tímamörk.