139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal svara spurningu þingmannsins sem hann spyr mig, af því að ég spyr hverra hagsmuna verið sé að gæta. Í neyðaráætluninni og neyðarlögunum sem sett voru og síðan gjaldeyrishaftalögunum sem sett voru 2008 var verið að bregðast við algjöru hruni íslenska bankakerfisins og þar af leiðandi hruni íslensks efnahagslífs í framhaldi, við höfum glímt við það síðan. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir og vitnar í orð annars þingmanns: Það gerði sér enginn grein fyrir því.

Ég ætla ekki og hef aldrei ætlað öðrum stjórnmálamönnum að ganga annarra hagsmuna en þeirra sem þeir eru kosnir til. Mér þykir hins vegar að í frumvarpinu sé þannig gengið fram í ákveðnum greinum að ég get ekki séð að verið sé að gæta t.d. hagsmuna fyrirtækjanna í landinu og þar af leiðandi fjölskyldnanna. Ég get ekki séð að svo sé. Mér finnst frekar að verið sé að setja fótinn fyrir en að leiða til lykta verkefni sem við þurfum nauðsynlega á að halda.