139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hefur, eins og aðrir hv. þingmenn úr Samfylkingunni sem hafa tjáð sig í þessari umræðu, bara eitt svar við öllum spurningum sem spurðar eru í þinginu. Það er alveg sama hvaða mál er til umræðu og alveg sama hvaða fletir eru á því máli, alveg sama hvaða spurninga er spurt, alltaf er svarið ESB. (Gripið fram í: Stutt orð.) — Stutt skammstöfun.

Mikið óskaplega hlýtur það stundum að vera þægilegt að lifa í veruleika sem er jafnþröngur og sá að það dugi bara að koma hér í ræðustól Alþingis og fara með möntruna um Evrópusambandið og evruna og þar með hverfi öll vandamál — kannski ekki öll, hv. þingmaður viðurkenndi það að kannski mundu einhver vandamál standa eftir (MÁ: Minni háttar.) enda eru einhver ríki í Evrópusambandinu í minni háttar vanda að því er virðist þó að hér á landi sé gert lítið úr því.

Nei, ég játa að ég sé Evrópusambandið og evruna ekki sem lausn í þessu sambandi. Ég held að við færum úr öskunni í eldinn. Ég gæti farið yfir það í löngu mál.

Ég held að það sé ákveðið pólitískt raunsæi að koma ekki hingað eins og hv. þingmaður og predika eina lausn á þessu vandamáli heldur vera tilbúinn að hlusta á sérfræðinga, sem ég vek athygli á að hefur verið vanrækt í þessu máli undanfarna mánuði þó að þingið hafi lagt upp með að það skyldi gert. Það hefur verið vanrækt. Þrír mánuðir eru dottnir niður dauðir vegna þess að efnahags- og skattanefnd og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra létu ekki fara fram þær úttektir sem átti að gera. Þrír mánuðir eru dauðir út af því. Ég er alveg tilbúinn að samþykkja framlengingu haftanna um þrjá mánuði ef það má verða til þess annars vegar að við getum fengið þessa sérfræðiráðgjöf og hins vegar (Forseti hringir.) komist að einhverju sæmilega viðunandi pólitísku samkomulagi um lausnir á þessum málum.