139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum þau svör sem hann gaf við þessum spurningum mínum, sem kannski voru viðamiklar. Mig langar í framhaldinu af því sem hann sagði um þá þingnefnd sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis, og lagði fram tillögur um hvernig við ætluðum að reyna að læra af því sem gerðist í hruninu, að spyrja hv. þingmann hvort það sýni ekki svart á hvítu hvað við höfum lítið lært og hvað stofnanirnar, sem að hluta til brugðust í hruninu, hafa lítið lært, þegar ágætur seðlabankastjóri, sem talar um að brýnt sé að losa höftin, segir á fundi í dag: Heimild er í lögum til að láta gjaldeyrishöftin gilda til ársloka 2015. En Már segir markmiðið vera að losa um höftin mun fyrr.

Við erum enn, sem enn erum löggjafinn, að ræða hvort festa eigi þessi gjaldeyrislög til 2015 og á sama tíma segir Seðlabankinn að heimild sé í lögum til að gera slíkt.