139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. formanni iðnaðarnefndar greinargott yfirlit um störf nefndarinnar þó svo að hann næði aldrei þessu vant ekki að ljúka máli sínu. Í þessu máli liggja fyrir allmargar umsagnir og ég hef stoppað sérstaklega við umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram koma margar ágætar ábendingar.

Ég tek eftir því að ekki er tekið á einni ábendingu í nefndarálitinu og það er ábending sambandsins varðandi 37. gr. náttúruverndarlaga, c-lið 1. mgr., sem hljóðar svo: „Allir fossar og nánasta umhverfi þeirra ásamt náttúrulegu rennsli njóti sérstakrar verndar.“ Samband sveitarfélaga beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að skilgreina orðið foss sem ég tel raunar mjög brýnt að gera, einfaldlega vegna þess að fossar eru af ýmsum stærðum og gerðum. Miðað við þá tilhneigingu sem liggur fyrir í íslenskri umræðu og vinnu í dag í náttúruverndarmálum er ósköp eðlilegt að menn staldri við og spyrji hvaða fyrirbæri eigi að falla undir þá skilgreiningu sem um ræðir. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að nú þegar erum við, sem betur fer, á margan hátt búin að friða mjög mörg svæði landsins fyrir ágengni mannsins en stundum þykir manni nóg um ásælnina. Þegar sá slagur er tekinn þá er mjög gott og æskilegt að hafa fyrir sér einhverjar skilgreiningar á fyrirbærum sem þessum. Ég vildi gjarnan inna formann nefndarinnar eftir skoðanaskiptum nefndarmanna um þessa athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga.