139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Heldur var þetta stuttaraleg skýring hjá nafna mínum hv. þm. Kristjáni L. Möller. Ég er þess fullviss að nauðsynlegt er að vinna skilgreiningu á því fyrirbæri sem við köllum foss. Við eigum smálækjarsprænur með fossum í o.s.frv. Við erum með þá stöðu uppi í landinu í dag að af 103 þúsundum ferkílómetra lands erum við þegar — og ég bið hv. formann að taka sérstaklega eftir þessu orðum en hann er enn að afla sér upplýsinga frá nefndarmönnum í iðnaðarnefnd og ég vænti þess að sjá hann skjótast þvers og kurs um sali til að fá upplýsingar í síðara svari við þessu andsvari — með hátt í 30 þúsund ferkílómetra lands friðlýsta með einhverjum hætti í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum og hvað eina. Án þess að ég sé að lýsa því yfir að mér finnist fulllangt gengið þá tel ég í ljósi þeirrar umræðu sem bíður okkar að þörf hafi verið á því að skilgreina þetta fallega íslenska orð foss. Mér duga ekki þær útskýringar sem hv. formaður hefur fengið og ég vænti þess að eftir samræður við nefndarmenn í iðnaðarnefnd út og suður um allan sal komi hann með greinargott svar í síðara svari sínu.