139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski akkúrat með 79. gr. að þar hefði maður talið að sveitarstjórnarstigið ætti með einhverjum hætti að koma inn, ef hugmynd löggjafans er að tryggja gegnsæi og að ferlið sé borgurunum skýrt og ljóst.

Oft eru það reyndar sveitarfélögin sjálf sem þurfa að sækja til æðra stjórnsýslustigs vegna framkvæmda innan sveitarfélaganna. En ég held að í t.d. lokamálsgrein 79. gr. þar sem stendur: „Iðnaðarráðherra skal í reglugerð, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, setja nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu“, o.s.frv. væri hægt og mundi ekki saka að það væri gert með einhverjum hætti og skoðun í samvinnu við sveitarstjórnarstigið. Þó að þessi tvö stig, umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið, séu hluti af æðra stjórnsýslustigi, eins og sumir vilja kalla það, hefði ég kosið að meira jafnræði ríkti á milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisins og að menn töluðu saman um þá hagsmuni sem þarf að gæta í sveitarfélögum vegna borgaranna sem og á vígstöðvum ríkisins þegar kemur að velferð borgaranna. Því allt snýst þetta um borgaranna, hvort heldur í sveitarfélaginu sjálfu eða í landinu. Við erum að gæta hagsmuna hans með löggjöfinni sem og í vinnu okkar sem sveitarstjórnarmenn.