139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

frumvarp um Stjórnarráðið.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta að ég sé með einhverjum hætti að troða þessu máli í gegnum þingið. Það er búið að vera til umfjöllunar í þinginu og í þingnefndum í marga mánuði þar sem ítarlega hefur verið farið yfir það. Málið liggur fyrir til 2. umr. og er á dagskrá að loknum óundirbúnum fyrirspurnum að því ég best veit. Samt taka þingmenn tvær af fimm óundirbúnum fyrirspurnum í þetta mál. (Gripið fram í.) Ja, það er að minnsta kosti mjög sérstakt í mínum huga. (Gripið fram í.)

Þingnefndin hefur gert verulegar breytingar á málinu og eru flestar hverjar til bóta að mínu viti. Þetta mál miðar að því að bæta starfshætti í Stjórnarráðinu með margvíslegum hætti, koma meiri formfestu á ýmis mál í Stjórnarráðinu, á ríkisráðsfundi, fundargerðir o.s.frv. (Gripið fram í.) Að verulegu leyti er málið byggt á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. (Gripið fram í.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við séum að taka upp einhverja nýja stjórnskipun hér sem ekki er til annars staðar. Í löndunum í kringum okkur, á öllum Norðurlöndum nema í Finnlandi hefur þessi skipan mála ríkt í langan tíma. Hér kalla menn það einræðistilburði af minni hálfu að koma slíkri skipan á sem er fyrst og fremst að koma á bættum stjórnarháttum í Stjórnarráðinu og stjórnsýslunni og að gera framkvæmdarvaldið betur í stakk búið til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til þess á hv. Alþingi, m.a. að svara fyrirspurnum, gera stjórnsýsluna opnari, o.s.frv. (Gripið fram í.) Allar breytingarnar hníga í þá átt að hafa hér opnari stjórnsýslu og mæta þeim óskum sem fram komu hjá rannsóknarnefndinni.

Allt annað er bara fyrirsláttur í því sem stjórnarandstaðan setur hér (Forseti hringir.) fram og það er merkilegt að hún skuli alltaf reyna að taka upp mál í ræðustól sem hún heldur að setji einhvern fleyg í raðir ríkisstjórnarinnar. Þetta mál mun ekki gera það. [Kliður í þingsal.] (RM: Hver var stefna Framsóknarflokksins árið 2009 í þessu máli?)