139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[11:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. innanríkisráðherra áðan sé ég ástæðu til að gera grein fyrir atkvæði mínu í atkvæðagreiðslu um 3. gr. frumvarpsins, sem er algjört lykilákvæði þessa frumvarps.

Í nefndaráliti segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við markmið frumvarpsins verða ekki lagðar til neinar breytingar á inntaki og stöðu vatnsréttinda frá þeim grundvelli sem lagður var með vatnalögunum frá 1923 og mótast hefur í réttarframkvæmd á síðastliðnum áratugum.“

Sú réttarframkvæmd hefur einmitt leitt í ljós að vatnsréttindi eru undirorpin eignarrétti landeigenda og þau felast í eignarrétti fasteignareigenda yfir löndum sínum.

Nú er verið að festa í sessi það fyrirkomulag sem við höfum talað hér fyrir þegar reynt hefur verið að gera breytingar á vatnalögunum (Forseti hringir.) og farin sú leið sem við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir. Ég fagna því alveg sérstaklega.